Hjörvar og Bragi efstir á KORNAX mótinuAlþjóðlegi meistarinn, Bragi Þorfinnsson (2398), og Hjörvar Steinn Grétarsson (2358) eru efstir og jafnir með fullt hús vinninga að lokinni fjórðu umferð sem fór fram í dag.  Bragi sigraði Ingvar Þór Jóhannesson (2330) í nokkuð snarpri skák þar en Hjörvar lagði Sverri Örn Björnsson (2173).

 

Jöfn í 3.-5. sæti með 3,5 vinning eru Sigurbjörn Björnsson (2317), Lenka Ptacnikova (2315) og hinn ungi og efnilegi, Daði Ómarsson (2131).  Tíu skákmenn koma næstir með 3 vinninga.

 

Nokkuð var um óvænt úrslit og má sérstaklega nefna góðan sóknarsigur Patreks Marons Magnússonar (1977) á Haukamanninum sterka, Þorvarði Fannari Ólafssyni (2217).  Þá sigraði Ólafur Gísli Jónsson (1872) Bjarna Hjartarson (2162) og hin unga og efnilega, Tinna Kristín Finnbogadóttir (1750) heldur áfram góðu gengi en hún sigraði Bjarna Jens Kristinsson (2033).