Hjörvar leiðir enn á KORNAX mótinu



Hjörvar Steinn Grétarsson (2358) sigraði Björn Þorfinnsson (2383) í sjöundu umferð KORNAX mótsins – Skákþings Reykjavíkur sem fór fram fyrr í dag.  Hjörvar hefur hlotið 6,5 vinning og er kominn með vinningsforskot þegar tveim umferðum er ólokið en jafnir í 2.-3. sæti eru Ingvar Þór Jóhannesson (2330), sem gerði jafntefli við Sigurbjörn Björnsson (2317), og Halldór Grétar Einarsson (2260), sem vann Lenku Ptacnikovu (2315) eftir að hún féll á tíma í vænlegri stöðu. 

Sigurbjörn er í 4.-9. sæti með 5 vinninga ásamt Birni, Sverri Erni Björnssyni (2173), Sverri Þorgeirssyni (2176), sem sigraði alþjóðlega meistarann Braga Þorfinnsson (2398) mjög óvænt, Jóhanni H. Ragnarssyni (2140) og Magnúsi P. Örnólfssyni (2185).

Töluvert var um óvænt úrslit sem er alltaf skemmtilegt í mótum, nema væntanlega fyrir þá sem “lenda í óvæntu úrslitunum”.  Auk óvænts sigurs Sverris á Braga hélt Tinna Kristín Finnbogadóttir (1750) áfram mögnuðu gengi þegar hún gerði jafntefli við Bjarna Hjartarson (2162) og samsvarar árangur hennar nú 2060 skákstigum og hækkun upp á heil 36 stig.  Þá gerði Örn Leó Jóhannsson (1710) jafntefli við Daða Ómarsson (2131) í magnaðri skák þar sem Örn gaf drottningu sína um miðbik skákar fyrir hrók og mann en fékk á móti kröftugt mótspil.  Atli Antonsson (1716) gerði jafntefli við Eirík K. Björnsson (2025) og sömuleiðis gerði Emil Sigurðarson (1609) jafntefli við Frímann Benediktsson (1930).  Þá vann Dagur Kjartansson (1485) Hörð Garðarsson (1888) og Brynjar Steingrímsson (1437) gerði jafntefli við Þorstein Leifsson (1821).  Að lokum má nefna sigur hins stigalausa Jóns Birgis Einarssonar á Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur (1705).