Hjörvar kominn með 2 vinninga forskot á Haustmótinu



Hjörvar Steinn Grétarsson (2320) heldur áfram ótrúlegri sigurgöngu sinni á Haustmótinu en í sjöttu umferð, sem fram fór í gærkvöldi, vann hann Lenku Ptacnikovu (2285) örugglega í 29 leikjum með svörtu mönnunum.  Tefld var Sikileyjarvörn og eftir ónákvæmni Lenku í byrjuninni náði Hjörvar upp óstöðvandi kóngssókn sem leiddi fljótt til uppgjafar Lenku.  Það sem vekur ekki síður athygli er hversu fljótt Hjörvar hefur klárað andstæðinga sína en allar skákir hans, utan ein, hafa verið í kringum 30 leikir, sem verður að teljast harla óvenjulegt í þessum styrkleika.

Hjörvar er því enn með fullt hús en næstur honum með 4 vinninga kemur Ingvar Þór Jóhannesson (2323) sem virðist kominn á flug og hefur sigrað þrjár skákir í röð.  Í gær lagði hann Daða Ómarsson (2105) í skák sem segja má að sé einkennandi fyrir Ingvar, stöðuleg barátta þar sem hann sveið hinn unga andstæðing sinn hægt og rólega og nýtti sér veika peðastöðu hans á drottningarvæng til sigurs.

Þrír keppendur eru jafnir með 3,5 vinning í 3.-5. sæti en ásamt Lenku eru það Sigurður Daði Sigfússon (2335), sem sigraði Jóhann H. Ragnarsson (2118) af miklu öryggi, en Jóhann sá aldrei til sólar í þeirri skák, og Sigurbjörn Björnsson (2287), sem gerði jafntefli við Jón Árna Halldórsson (2202) í baráttuskák.

Í b-flokki eru nokkar sviptingar og spennan mikil.  Helgi Brynjarsson (1969) og Frímann Benediktsson (1950) hafa tekið forystuna með 4 vinninga en Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir (1788) og Patrekur Maron Magnússon (1954) fylgja í humátt með 3,5 vinning.  Þrír skákmenn koma næstir með 3 vinninga.

Í c-flokki virðist baráttan ætla að verða á milli Atla Antonssonar (1720) og Friðriks Þjálfa Stefánssonar (1694) en þeir leiða með 5 vinninga eftir sigra í gær.  Næstir með 4 vinninga eru Eiríkur Örn Brynjarsson (1648) og Emil Sigurðarson (1515).

Örn Leó Jóhannsson (1728) leiðir d-flokkinn sem fyrr með fullu húsi en Brynjar Steingrímsson (1185) er annar með 4,5 vinning og Jóhann Karl Hallsson og Róbert Leó Jónsson eru jafnir í 3.-4. sæti með 4 vinninga.

Sjöunda umferð fer fram á föstudagskvöld og hefst kl. 19.30.  Skákir a-flokks verða sýndar beint.

Á heimasíðu mótsins má nálgast öll úrslit.

Skákir 7. umferðar í beinni útsendingu. (Tengilli virkjast skömmu fyrir umferð)