Hjörvar kominn í fluggír á Haustmótinu



Hjörvar Steinn Grétarsson (2320) virðist óstöðvandi á Haustmótinu en hann sigraði Jón Árna Halldórsson (2202) í fjórðu umferð sem fram fór í gærkvöldi.  Hjörvar hefur þar með 1,5 vinnings forskot á næstu menn sem eru Sigurbjörn Björnsson (2287) og Lenka Ptacnikova (2285).  Engin jafntefli litu dagsins ljós í fjórðu umferð a-flokks.

Í b-flokki sigraði Kristján Örn Elíasson (1982) Pál Sigurðsson (1879) öðru sinni á skömmu tíma en þeir mættust í fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga síðastliðna helgi.  Helgi Brynjarsson (1969) mætti ekki til leiks gegn Oddgeiri Ottesen (1903) og einnig má geta þess að engin skák vannst á svart í fjórðu umferðinni.  Formaður T.R., Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir (1788), og Haukamaðurinn, Oddgeir, eru nokkuð óvænt efst í b-flokki með 3 vinninga en síamsbræðurnir, Frímann og Hörður Garðarsson (1884) koma næstir með 2,5 vinning.

Í c-flokki heldur Friðrik Þjálfi Stefánsson (1694) forystunni með 3,5 vinning eftir sigur á Guðmundi Kristni Lee (1496) en Atli Antonsson (1720) kemur fast á hæla hans með 3 vinninga eftir snarpan sigur á Emil Sigurðssyni.  Glókollurinn, Eiríkur Örn Brynjarsson (1648), er svo þriðji með 2,5 vinning.

Í d-flokki lagði Örn Leó Jóhannsson (1728) helsta keppinaut sinn, Þormar Levi Magnússon og heldur því vinnings forskoti á toppnum með 4 vinninga.  Þrír skákmenn koma næstir með 3 vinninga.

Það er athyglisvert að efstu þrjú sætin í flokkum c og d eru eingöngu skipuð TR-ingum ásamt tveim af efstu þremur í b-flokki.

Fimmta umferð fer fram á morgun, sunnudag, og hefst klukkan 14.  Áhorfendur eru hvattir til að mæta en veitingar Birnu eru ávallt óvenju glæsilegar á sunnudögum, m.a. ljúffengar rjómavöfflur!

Á heimasíðu mótsins má nálgast öll úrslit.