Hilmir Freyr Norðurlandameistari!



Verðlaunahafar. Hilmir Freyr er hér fyrir miðju ásamt þeim Jóni Kristni Þorgeirssyni (t.v.) og Oliver Aroni Jóhannessyni.

Verðlaunahafar. Hilmir Freyr er hér fyrir miðju ásamt þeim Jóni Kristni Þorgeirssyni (t.v.) og Oliver Aroni Jóhannessyni.                     Mynd: Björn Ívar Karlsson

Hilmir Freyr Heimisson varð um helgina Norðurlandameistari í skák þegar hann varð efstur í sínum aldursflokki á Norðurlandamótinu sem fór fram í Finnlandi. Hilmir keppti í næstelsta aldursflokknum, flokki ungmenna fæddum 2001-2002, en hann var fimmti í stigaröð keppenda. Hilmir hlaut 5 vinninga í skákunum sex og var hálfum vinningi á undan næsta keppanda, þeim stigahæsta í flokknum. Sannarlega glæsilegur árangur hjá þessum efnilega skákmanni sem hækkar um 66 Elo-stig fyrir árangurinn.

Taflfélag Reykjavíkur óskar Hilmi Frey til hamingju með sigurinn!

Oliver Aron Jóhannesson úr Fjölni tryggði sér einnig sigur í elsta flokknum og því eiga Íslendingar tvo Norðurlandameistara ungmenna 2018. Frábær árangur!

Fjórir aðrir iðkendur úr Taflfélagi Reykjavíkur tóku að auki þátt í mótinu og stóðu allir sig með mikilli prýði en það voru (vinningar í sviga): Aron Þór Mai (2,5), Alexander Oliver Mai (3,5), Róbert Luu (2,5) og Batel Goitom Haile (3). Að auki tóku þátt Jón Kristinn Þorgeirsson (4), Stephan Briem (2), Óskar Víkingur Davíðsson (3,5) og Gunnar Erik Guðmundsson (3).

Íslendingar mega vera stoltir af þessum glæsilega hópi ungmenna.

Hér má sjá öll úrslit úr mótinu.