Haustmótið: Hinir ungu leiðaÞriðja umferð Haustmótsins fór fram í gærkvöldi.  Í a-flokki hélt Daði Ómarsson (2172) áfram góðu gengi þegar hann gerði jafntefli við stórmeistarann, Þröst Þórhallsson (2381), með svörtu mönnunum.  Daði varðist hárrétt í hróksendatafli peði undir.  Þá sigraði Sverrir Þorgeirsson (2223) alþjóðlega meistarann, Guðmund Kjartansson (2373).  Öðrum skákum lauk með jafntefli en Gylfi Þórhallsson (2200) fór illa að ráði sínu þegar honum tókst ekki að vinna Sigurbjörn Björnsson (2300) með drottningu og peð gegn hróki og peði þess síðarnefnda.  Sigurbjörn er reyndar þekktur fyrir að vera mjög klókur þegar hann er kominn með “tapaðar” stöður.

Hinir ungu, Daði og Sverrir leiða í flokknum með 2,5 vinning, Sigurbjörn kemur næstur með 2 vinninga en þrír skákmenn koma næstir með 1,5 vinning.

Í b-flokki heldur Stefán Bergsson (2102) forystunni eftir stutt jafntefli við Ögmund Kristinsson (2050).  Stefán hefur 2,5 vinning en jafnir í 2.-3. sæti með 2 vinninga eru alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason (2148) og Ögmundur.  Fjórir skákmenn hafa 1,5 vinning.

C-flokkur heldur áfram að leiða af sér mörg jafntefli en þremur skákum þriðju umferðar lauk með skiptum hlut.  Tíu af fimmtán viðureignum flokksins hafa nú endað með jafntefli.  Páll Sigurðsson (1884) leiðir með 2,5 vinning en sjö skákmenn koma næstir með 1,5 vinning!

Í d-flokki eru þrír efstir og jafnir með 2,5 vinning; Páll Andrason (1604), Snorri Karlsson (1585) og Guðmundur Lee (1553) en tveir fyrstnefndu gerðu jafntefli innbyrðis í þriðju umferð.

Í opnum e-flokki leiða Kristján Þór Sverrisson (1335) og Grímur Björn Kristinsson með fullu húsi en í þriðja sæti með 2,5 vinning er hin unga og efnilega, Sóley Lind Pálsdóttir (1060), dóttir Páls Sigurðssonar sem teflir í c-flokki.

Fjórða umferð fer fram á sunnudag og hefst kl. 14.

Allar upplýsingar má finna á heimasíðu mótsins.