Haustmótið: Enn leiða Daði og Sverrir



Forystusauðirnir í Haustmótinu, Daði Ómarsson (2172) og Sverrir Þorgeirsson (2223), sigruðu báðir andstæðinga sína í fjórðu umferð sem fór fram í dag.  Daði vann Sigurbjörn Björnsson (2300) og Sverrir lagði Jón Árna Halldórsson (2194).  Daði og Sverrir eru með 3,5 vinning og hafa nú vinningsforskot á næsta mann, Gylfa Þórhallsson (2200), sem skaust upp í þriðja sætið með fremur auðveldum sigri á Þorvarði Ólafssyni (2205).

Þá vakti athygli jafntefli Sverris Arnar Björnssonar (2161) og stórmeistarans, Þrastar Þórhallssonar (2381), í aðeins 20 leikjum, en sá síðarnefndi hefur nú gert jafntefli í öllum viðureignum sínum.  Þröstur er mjög reyndur og líklegt er að hann eigi eftir að setja aukinn kraft í taflmennskuna þegar á líður.  Hann er jafn Sigurbirni í 4.-5. sæti með 2 vinninga.

Í b-flokki virðast línur vera farnar að skýrast þar sem tveir stigahæstu keppendurnir skipa efstu sætin.  Stefán Bergsson (2102) heldur forystunni með 3,5 vinning eftir mjög snarpan sigur á Jóhanni Ragnarssyni (2081) í aðeins 17 leikjum þar sem Stefán fórnaði drottningunni fyrir óverjandi mát.  Alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason (2148), er kominn í annað sætið með 3 vinninga eftir baráttusigur gegn Jorge Fonseca (2024).  Ögmundur Kristinsson (2050) og Þór Valtýsson (2078) er jafnir í 3.-4. sæti með 2,5 vinning.

Aldrei þessu vant var aðeins eitt jafntefli í c-flokki en Páll Sigurðsson (1884) náði eins vinnings forskoti á toppnum með miklum heppnissigri gegn Sigurjóni Haraldssyni (1906) þar sem Sigurjón var með gjörunnið tafl undir lokin.  Er þetta ekki í fyrsta sinn sem Páll “grísar”.  Þrír skákmenn koma næstir með 2,5 vinning svo spennan í c-flokki er áfram mikil.

Í d-flokki sigraði Birkir Karl Sigurðsson (1466) Snorra Karlsson (1585) nokkuð óvænt á meðan Páll Andrason (1604) gerði jafntefli við Jón Trausta Harðarson (1500).  Við þessi úrslit harðnaði baráttan á toppnum mikið en þrír skákmenn leiða með 3 vinninga; Páll, Birkir og Guðmundur Kristinn Lee (1553).

Í opnum e-flokki sigraði Grímur Björn Kristinsson Kristján Þór Sverrisson (1335) í uppgjöri efstu manna og leiðir nú með fullu húsi, vinningi meira en sex næstu keppendur.

ATH – fimmta umferð fer fram á mánudagskvöld og hefst kl. 19.30.

Allar upplýsingar má finna á heimasíðu mótsins.