Hart barist í annari umferð U-2000 mótsinsÓlafur Guðmarsson stýrði hvítu mönnunum til sigurs gegn Jon Olav Fivelstad.

Ólafur Guðmarsson stýrði hvítu mönnunum til sigurs gegn Jon Olav Fivelstad.

Önnur umferð U-2000 mótsins fór fram síðastliðið miðvikudagskvöld og að henni lokinni eru níu keppendur efstir og jafnir eftir sigur í sínum fyrstu tveim viðureignum. Á efsta borði sigraði Ólafur Guðmarsson (1724) Jon Olav Fivelstad (1950) nokkuð óvænt ef horft er á stigamun þeirra í milli. Á öðru borði lagði Haraldur Baldursson (1935) Pál Þórsson (1695) nokkuð örugglega og á því þriðja hafði Stephan Briem (1895) baráttusigur á liðsfélaga sínum Birki Ísaki Jóhannssyni (1678) þar sem sá fyrrnefndi var orðinn mjög tæpur á tíma og staðan á borðinu afar tvísýn.

Hart barist í U-2000 mótinu.

Hart barist í U-2000 mótinu.

Af öðrum úrslitum má nefna sigur Jóns Eggerts Hallssonar (1648) á Hilmari Garðars Þorsteinssyni (1842) í orrustu þar sem Hilmar geystist fram og fórnaði vel og mikið en Jón stóðst áhlaupið og hlaut að launum vinninginn. Kristján Geirsson (1556) vann fremur auðveldan sigur með svörtu á skákdrottningunni Veroniku Steinunni Magnúsdóttur (1770) og þá gerði hinn ungi Benedikt Briem (1435) aftur gott jafntefli, nú gegn hinum margreynda Jóni Úlfljótssyni (1723). Að lokum má svo nefna góðan sigur Benedikts Þórissonar (1097) á Stefáni Orra Davíðssyni (1405). Nokkuð var því um góð úrslit þeirra stigalægri gegn þeim stigahærri sem gefur góð fyrirheit um spennandi og skemmtilegt mót.

Tveir efnilegir. Benedikt Þórisson lagði Stefán Orra Davíðsson með hvíta hernum.

Tveir efnilegir. Benedikt Þórisson lagði Stefán Orra Davíðsson með hvíta hernum.

Þriðja umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld en í henni taka allnokkrir keppendur yfirsetu. Venju samkvæmt hefst taflið kl. 19.30 og þá mætast m.a. Stephan og Jóhann Arnar Finnsson (1732), Kristján og Alexander Oliver Mai (1875), sem og Agnar Darri Lárusson (1750) og Ólafur. Öll úrslit á Chess-Results ásamt skákunum jafnóðum og þær berast.