Hart barist á Skákþingi ReykjavíkurÖnnur umferð Skákþings Reykjavíkur fór fram í gær og hart barist á öllum borðum. Flestar viðureignir fóru eins og vænta mátti en þó skellti Sigurjón Haraldsson (1784) í lága drifið, tefldi traust og uppskar jafntefli gegn skákmeistara TR 2014, Þorvarði Fannari Ólafssyni (2188). Svipað varð upp á teningnum hjá Halldóri Garðarssyni (1837) og Júlíusi Friðjónssyni (2145). Þá urðu næstum stórtíðindi þegar Alexander Oliver Mai (1837) var kominn með gerunnið tafl gegn Benedikt Jónassyni (2208). Benni er hins vegar ekki fæddur í gær og gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Augnabliks aðgæsluleysi Alexanders kostaði hann skákina þegar hann lenti í mátneti.

Næsta umferð verður tefld n.k. sunnudag, 15. janúar, kl. 13:00 og þá fara viðureignir að jafnast aðeins og mætast m.a. á efstu borðum Guðmundur Kjartansson og Lenka Ptacnikova, Benedikt Jónasson og Björn Þorfinnsson og Guðmundur Gíslason og Daði Ómarsson.