Hannes Hlífar í Taflfélag ReykjavíkurStórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson er genginn til liðs við Taflfélag Reykjavíkur eftir nokkurra ára fjarveru.  Hannes Hlífar þarf ekki að kynna fyrir skákáhugamönnum en hann hefur um árabil verið einn af sterkustu og sigursælustu skákmönnum þjóðarinnar og er sem stendur fjórði stigahæsti skákmaður landsins með 2540 Elo-stig.

 

Hannes sýndi snemma mikla skákhæfileika og var á unga aldri orðinn mjög sterkur skákmaður.  Fjórtán ára varð hann heimsmeistari unglinga 16 ára og yngri, ári seinna var hann orðinn alþjóðlegur meistari og 1993 varð hann stórmeistari.  Hannes er tólffaldur Íslandsmeistari og þá hefur hann ellefu sinnum teflt með sveit Íslands á Ólympíumótinu í skák, eða á hverju móti síðan 1992.  Fimm sinnum hefur Hannes sigrað á Opna alþjóðlega Reykjavíkurmótinu.

 

Það er mikill fengur fyrir Taflfélag Reykjavíkur að fá Hannes til liðs við sig þar sem hann hittir fyrir félaga sinn og nýkrýndan Íslandsmeistara, alþjóðlega meistarann Guðmund Kjartansson.  Koma Hannesar er vatn á myllu hins þróttmikla starfs félagsins sem hefur sjaldan verið öflugra.

 

Taflfélag Reykjavíkur býður Hannes Hlífar velkominn heim í félagið.