Gunnar Erik sigraði á öðru móti Bikarsyrpunnar



Kampakátir verðlaunahafar.

Kampakátir verðlaunahafar.

Mót tvö í skákmótaröð Bikarsyrpu TR fór fram um síðastliðna helgi. Tuttugu vösk ungmenni mættu til leiks og sáu um að halda uppi spennandi og skemmtilegri stemningu í húsnæði félagsins. Líkt og svo oft áður réðust úrslit ekki fyrr en í lokaumferðinni og fór svo að Gunnar Erik Guðmundsson var fremstur meðal jafningja en hann hlaut 6 vinninga úr skákunum sjö og fór taplaus í gegnum mótið. Í öðru sæti með 5,5 vinning var Alexander Már Bjarnþórsson en jafnir í 3.-4. sæti með 5 vinninga voru Rayan Sharifa og Ísak Orri Karlsson. Rayan var ofar á mótsstigum (tiebreaks) og hlýtur því 3. sætið að þessu sinni. Efst stúlkna var Iðunn Helgadóttir sem var sjónarmun á undan Katrínu Maríu Jónsdóttur. Það er gaman að segja frá því að verðlaunahafarnir fjórir koma frá þremur mismunandi skákfélögum. Mótahald fór afar vel fram enda keppendur orðnir þaulreyndir sem sést vel á því að aðeins einn keppandi var að taka þátt í sínu fyrsta Bikarsyrpumóti. Það var hinn ungi Mikael Bjarki Heiðarsson sem er fæddur árið 2009 og hefur sótt æfingar Breiðabliks. Hann stóð sig eins og herforingi og halaði inn 4 vinningum. Sannarlega góður árangur á hans fyrsta móti.

Bikarsyrpan í fullum gangi.

Bikarsyrpan í fullum gangi.

Við í TR óskum verðlaunahöfunum til hamingju og þökkum keppendum fyrir þátttökuna. Þriðja mót syrpunnar fer fram helgina 27.-29. október og vonumst við til að sjá sem flesta þar. Hér að neðan er hlekkur inn á öll úrslit úr mótinu og þá eru skákir mótsins aðgengilegar á rafrænu formi en það var Daði Ómarsson sem sló þær inn.