Gunnar Erik sigraði á fjórða móti Bikarsyrpunnar



Kampakátir verðlaunahafar!

Kampakátir verðlaunahafar!

Blikapilturinn öflugi, Gunnar Erik Guðmundsson (1491), varð efstur keppenda á Bikarsyrpumóti helgarinnar en hann hlaut 6,5 vinning í skákunum sjö. Kristján Dagur Jónsson (1284) og Batel Goitom Haile (1421) komu jöfn í mark í 2.-3. sæti með 5,5 vinning en Kristján hlaut annað sætið eftir stigaútreikning. Batel hlaut að auki stúlknaverðlaun. Gestur Andri Brodman (0) og Adam Omarsson (1068) komu næstir með 5 vinninga en Gestur kom skemmtilega á óvart með góðri frammistöðu í sínu fyrsta Bikarsyrpumóti.

20180218_160343

Sigur Gunnars var nokkuð öruggur en þetta var þriðja mótið í röð þar sem hann stendur uppi sem sigurvegari og ljóst er að ekki líður á löngu þar til hann fer yfir 1600 Elo-stig og kveður þar með Bikarsyrpuna eftir gott gengi í mótaröðinni.

20180217_101021

Mótahald gekk afar vel og stóðu allir 29 keppendurnir sig með miklum sóma, hvort heldur sem er við skákborðin eða utan þeirra, og til marks um það má nefna að í langflestum tilfellum voru allir sestir við sín borð vel fyrir upphaf hverrar umferðar.

20180217_100947

Undanfarin mót hafa falið í sér skemmtilega blöndu af börnum sem lengra eru komin í skáklistinni og þeim sem eru komin styttra á veg. Hugmyndin með Bikarsyrpu TR er einmitt ekki síst sú að börn, sem komin eru með fyrstu reynslu af skákkennslu- og þjálfun ásamt þátttöku í skólamótum og öðrum styttri mótum, fái að spreyta sig í kappskákmóti þar sem tímamörk eru lengri og skrifa þarf niður leikina í skákunum.

20180216_174138

Hér má sjá öll úrslitin úr mótinu en fimmta og síðasta mót vetrarins fer fram helgina 6.-8. apríl. Við þökkum ykkur fyrir þátttökuna og hlökkum til að hitta ykkur aftur í apríl!