Guðmundur Kjartansson: Hastings, Sevilla og Gíbraltar



Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson hefur tekið þátt í mörgum mótum að undanförnu og hefur skrifað skemmtilega pistla meðfram taflmennskunni.  Hér er sá nýjasti:

Hastings, Sevilla og Gíbraltar

 

Eftir Suður-Ameríku túrinn minn í fyrra kom ég heim um jólin í 3 daga en fór svo strax aftur út til að taka þátt í Hastings á Englandi. Í Hastings hitti ég Hjörvar og vorum við saman í herbergi ásamt skoskum félaga okkar Clément (borið fram með frönskum hreim). Í Hastings (the city that never sleeps!) fann ég að æfingin úr síðustu mótum var að skila sér og hækkaði ég um 14 stig. Hjörvar átti allt í lagi mót en var óheppinn að fá magapest í miðju móti. Ég og Clément höfðum sannfært hann um að kíkja með okkur á indverskan veitingastað daginn fyrir gamlársdag, sem endaði illa og var hann rúmliggjandi á meðan ég og Clément kíktum í kínverskt áramótapartý!

Eftir Hastings ætlaði ég að fara aftur til Íslands en ég fann að ég var að tefla vel og að sjálfstraustið var til staðar svo ég ákvað að breyta miðanum heim og fara til Spánar. Eftir síðustu umferð tek ég lestina frá Hastings út á Gatwick flugvöll og er samferða eistneska stórmeistaranum Kaidor Kualots. Við áttum báðir flug um morguninn svo við tókum smá stúderingar session um nóttina og fengum okkur kaffi til að halda okkur vakandi. Því næst fór ég til Sevilla þar sem ég hafði nokkra daga fyrir mótið. Ástæðan fyrir því var sú að ég hafði skoðað heimasíðu mótsins árinu á undan og var því með ranga dagssetningu en sem betur fer kom það ekki að sök og ég notaði þessa fimm daga sem ég hafði til að skoða borgina sem er virkilega flott. Annars eyddi ég mestum tíma mínum fyrir mótið í að horfa á endatöflsvídjó eftir Karsten Müller á uppáhalds veitingastað Hjörvars, McDonald´s! En þar sem mér er sérstaklega umhugað um heilsuna mína fékk ég mér yfirleitt te eða salat. Starfsmenn McDonald´s leggja sérstaka áherslu á góða þjónustu og þegar viðskiptavinurinn biður um te, þá fær hann te! Heitt vatn í bolla og tepokinn oní,  og þegar ég sá að ég var að drekka „Horniman´s tea“ vissi ég að McDonald´s væri fyrirtæki sem hugsar fyrst og fremst um gæði! 

..en nóg um það. Í Sevilla átti ég ágætt mót og hækkaði um 8 stig, vann sjö stigalægri andstæðinga nokkuð örugglega en tapaði fyrir tveimur stórmeisturum sem tóku efstu tvö sætin. Skákin gegn sigurvegara mótsins, Stewart Haslinger var nokkuð áhugaverð. Ég átti fína vinningssénsa í endataflinu en í tímahrakinu í staðinn fyrir að halda ró minni ákvað ég að fórna hrók sem var hrikaleg praktísk ákvörðun og tapaði að sjálfsögðu.

Beint eftir mótið tók ég rútu til La Linea sem er spænsk borg við landamæri Gíbraltar. Þar sem La Linea er mun ódýrari en Gíbraltar ákvað ég að gista þar og labba yfir landamærin á hverjum degi. Það var virkilega spennandi að koma til Gíbraltar, bæði vegna mótsins sem er eitt sterkasta opna mót í heimi og líka mjög skemmtilegur staður. Gíbraltarkletturinn er líklega með flottari náttúrufyrirbærum sem ég hef séð og það var gaman að sjá yfir til Afríku, en 14km af sjó aðskilur Morokkó og Gíbraltar. Ég hélt áfram að tefla vel í Gíbraltar og hækkaði um 11 stig, sem er ágætt. Í 7.umferð tefldi ég á móti Kualots, félaga mínum sem var með mér á Gatwick. Ég var með svart og var eiginlega búinn að segja honum frá því helsta sem ég væri að tefla og sýna honum stúderingarnar mínar. Ég sá strax hvað hann hafði undirbúið svo ég var fljótur að breyta út af og eftir miklar flækjur kemur upp endatafl þar sem ég er með smá vinnings möguleika en ég þurfti að tefla mjög vel til að innbyrða vinninginn. Í umferðinni á eftir tefldi ég mjög vel en í fertugasta leik er ég blindur fyrir mjög auðveldri vinningsleið og tapa skákinni í staðinn. Með vinningi hefði ég verið mjög nærri stórmeistara áfanga en í staðinn kláraði andstæðingurinn minn sinn síðasta GM norm með jafntefli í níundu umferð.

 

Nú er ég loksins kominn heim í bili og nota tímann til að hvílast, kíkja í ræktina og undirbúa mig fyrir næsta mót, RVK open! Mér fannst margt jákvætt hjá mér í þessum þremur mótum en ég var samt að tapa mörgum skákum. Í 29 skákum fékk ég 19 vinninga ( 17 unnar skákir, 4 jafntefli, 8 töp) og hækkaði um 33 stig. Ég held að það sem var að fara úrskeiðis sé eitthvað sem er auðvelt að laga, annars tel ég helstu framfarirnar felast í því að maður er meðvitaðari um hvað andstæðingur manns og maður sjálfur er að gera mikið af mistökum sem er mjög hvetjandi því það sýnir hversu mikið hægt er að bæta sig ef maður er tilbúinn að leggja miklu vinnu á sig!