Guðmundur hlutskarpastur á fyrsta Þriðjudagsmóti TR



Rapid Tuesday IAlþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson sigraði með fullu húsi á fyrsta Þriðjudagsmóti TR sem fram fór í gær. Guðmundur tryggði sér sigurinn með því að vinna Jóhann Ragnarsson í lokaumferðinni í hörkuspennandi skák. Í öðru sæti varð Stephan Briem með 3,5 vinning eftir að hafa lagt bróður sinn að velli, Benedikt Briem, í lokaumferðinni með aðstoð heilladísanna. Fjórir skákmenn luku tafli með 2,5 vinning. 15 skákmenn mættu til leiks.

Það vakti nokkra athygli hve lág atskákstig ungu skákmennirnir hafa samanborið við kappskákstigin þeirra, en það sýnir glöggt hve fá atskákmót hafa verið haldin á Íslandi undanfarin ár.

TR hefur nú sett á laggirnar atskákmótaröð á þriðjudögum fyrir skákmenn sem náð hafa 1900 skákstigum (atskákstig eða kappskákstig). Mótin eru reiknuð til alþjóðlegra atskákstiga og tefldar verða fjórar umferðir með tímamörkunum 15+5. Næsta mót er eins og gefur að skilja næstkomandi þriðjudag og hefst klukkan 19:30. Heimildir herma að heitt verði á könnunni.

Lokastöðu og úrslit mótsins má finna á Chess-Results.