Guðmundur gerði jafntefli við stigahæsta keppandannGuðmundur Kjartansson (2356) gerði í dag jafntefli við skoska stórmeistarann, Jonathan Rowson (2591), í sjöundu umferð Skoska meistaramótsins en Rowson er stigahæsti keppandi mótsins.  Guðmundur stýrði svörtu mönnunum í tiltölulega rólegri skák þar sem tefldur var enskur leikur og fljótt urðu uppskipti á léttu mönnunum.  Þegar í endataflið var komið, þar sem hvor hafði báða hrókana og drottningu, virtist Guðmundur eiga meiri vinningsmöguleika en jafntefli var samið eftir 53 leiki.  Glæsilegur árangur hjá Guðmundi það sem af er móti og ljóst að stigagróði hans verður mjög mikill.

Aron Ingi Óskarsson (1876) gerði jafntefli við Skotann, Liam Ingram (1760).

Guðmundur er í 5.-10. sæti með 5 vinninga en Aron Ingi er í 82.-84. sæti með 2 vinninga.  Efstir og jafnir með 6 vinninga eru enski stórmeistarinn, Mark Hebden (2468) og indverski stórmeistarinn, S. Arun Prasad, en sá beið einmitt lægri hlut fyrir Guðmundi.

Á morgun mætir Guðmundur skoska stórmeistaranum, Colin McNab (2474), en Aron Ingi teflir við Skotann, James S. Macrae (1760).  Skák Guðmundar verður í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins.

Teflt er í einum opnum flokki og eru 88 keppendur skráðir til leiks.  Stigahæstur er skoski stórmeistarinn Jonathan Rowson (2591).  Guðmundur er 13. stigahæsti þáttakandinn en Aron Ingi er nr. 59 í röðinni.

Skoska meistaramótið er án vafa eitt elsta skákmót í heiminum sem haldið hefur verið samfellt.  Mótið í ár er það 116. í röðinni en það var fyrst haldið árið 1884.

Heimasíða mótsins

Skákirnar í beinni