Góður árangur TR-inga á Skákþingi Garðabæjar



Nokkrir galvaskir liðsmenn Taflfélags Reykjavíkur voru meðal þátttakenda á Skákþingi Garðabæjar sem lauk á dögunum. Í A-flokki tefldi Gauti Páll Jónsson ásamt bræðrunum Aroni Þór og Alexander Oliver Mai og nemur hækkun hvers og eins þeirra u.þ.b. 50 Elo-stigum. Úr skákunum sjö hlaut Gauti 4,5 vinning og Aron og Alexander 3 vinninga hvor.

U2000_2015_R1-14

Þorsteinn Magnússon hefur að undanförnu stundað skákina af kappi.

Í B-flokki röðuðu TR-ingar sér í þrjú efstu sætin. Jón Þór Lemery sigraði með 6,5 vinning, Þorsteinn Magnússon varð annar með 6 vinninga og þriðji með 5 vinninga varð Björn Magnússon. Þess má geta að Jón Þór hækkar um tæp 80 Elo-stig. Þá var hinn eitilharði Björgvin Kristbergsson einnig á meðal þátttakenda.

Sannarlega góð frammistaða hjá þessum ungu og efnilegu skákmönnum sem allir eiga það sammerkt að vera afar virkir við skákborðið og eiga vafalítið eftir að láta mikið að sér kveða á næstu árum.

Lokastöðu mótsins má sjá hér.