Gauti Páll á EM ungmenna



Á morgun sunnudag hefst í Batumi, Georgíu, 24. Evrópumeistaramót ungmenna 8-18 ára en þetta er í annað sinn sem mótið er haldið í þeirri sögufrægu  borg.  Ísland sendir að þessu sinni fjóra fulltrúa til leiks og er TR-ingurinn Gauti Páll Jónsson þeirra á meðal en hann tekur nú þátt í sínu fyrsta skákmóti á erlendri grundu og keppir í flokki 16 ára og yngri.

Gauti Páll hefur farið mikinn við skákborðið síðustu misseri og er nú með 1739 Elo-stig eftir tæplega 300 stiga hækkun á síðastliðnum tveimur árum.  Hann er númer 80 í stigaröð 86 keppenda í sínum flokki svo búast má við verðugu verkefni fyrir hinn skemmtilega og sókndjarfa skákmann sem hefur margoft sýnt að hann getur átt í fullu tré við hvern sem er á reitunum 64.

Alls taka þátt í tólf aldursskiptum flokkum drengja og stúlkna tæplega eitt þúsund keppendur frá 45 Evrópuríkjum.  Tefldar eru níu umferðir og verður að teljast mikill kostur að aðeins er tefld ein skák á dag en það kemur okkar mönnum sér vel enda er dægursveiflan frá Íslandi fjórar klukkustundir.  Teflt er alla daga til og með 28. október og hefjast allar umferðir kl. 11 að íslenskum tíma utan þeirrar síðustu sem hefst kl. 9.

Ásamt Gauta Páli taka þátt fyrir Íslands hönd Dagur Ragnarsson (u18) og Oliver Aron Jóhannesson (u16) úr Skákfélaginu Fjölni sem og Símon Þórhallsson (u16) úr Skákfélagi Akureyrar.

Taflfélag Reykjavíkur óskar þessum glæsilegu fulltrúum þjóðarinnar góðs gengis í komandi átökum !

  • Úrslit, staða og pörun
  • Heimasíða mótsins