Gagnaveitumótið: Titilhafarnir leiðaÖnnur umferð Gagnaveitumótsins – Haustmóts T.R. sem fór fram í gærkvöldi einkenndist af mikilli baráttu í A-flokki en stemningin í B-flokki var öllu rólegri þar sem þremur skákum af fimm lauk með jafnteflum eftir fremur átakalitla baráttu.  Ekkert jafntefli varð hinsvegar í C-flokki og í opna flokknum er enn nokkuð um óvænt úrslit.

 

Í A-flokki vakti viðureign hins unga og efnilega Olivers Arons Jóhannessonar og stórmeistarans Stefáns Kristjánssonar mesta athygli og svo fór að Stefán hafði sigur eftir mikla baráttu þar sem Oliver hafði í fullu tré við stórmeistarann.  Alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson sigraði Jóhann H. Ragnarsson í spennandi viðureign og þá lagði Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson hinn reynslumikla, Gylfa Þór Þórhallsson.  Stefán Bergsson vann Sverri Örn Björnsson en viðureign Kjartans Maack og Dags Ragnarssonar var frestað.  Athygli vekur að allar skákirnar unnust á svart.

 

Stigahæstu keppendur flokksins, þeir Stefán K, Jón Viktor og Einar Hjalti, leiða því með fullu húsi vinninga en Stefán B og Jóhann koma næstir með 1 vinning.  Fróðlegt verður að sjá hvort þremenningarnir skilji sig enn meira frá öðrum keppendum í næstu umferðum því þeir byrja ekki að mætast innbyrðis fyrr en í fimmtu umferð.  Í þriðju umferð mætast Einar og Jóhann, Stefán tekst á við Kjartan og Jón og Sverrir kljást.  Þá mætast Dagur og Gylfi í athyglisverðri viðureign og Stefán B glímir við Oliver í skák þar sem allt gæti farið upp í loft.

 

B-flokkur er strax farinn að bera keim af spennunni sem búist er við þar en í gær vann Jón Trausti Harðarson fremur auðveldan sigur á Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur og þá vann Ingi Tandri Traustason góðan sigur á Páli Sigurðssyni.  Viðureignum Tinnu Kristínar Finnbogadóttur og Harðar Garðarssonar, Hallgerðar Helgu Þorsteinsdóttur og Þóris Benediktssonar sem og Sverris Sigurðssonar og Atla Antonssonar lauk öllum með jafntefli og má vænta kröftugri framgöngu af þeirra hálfu í næstu umferð.

 

Enginn keppenda í B-flokknum hefur fullt hús en Ingi, Jón, Þórir og Hallgerður leiða með 1,5 vinning.  Páll og Jóhanna hafa einn vinning hvor.

 

Í C-flokki leiðir stigalægsti keppandi flokksins, Kristófer Ómarsson, með fullt hús vinninga eftir sigur á Elsu Maríu Kristínardóttur en Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, Valgarð Ingibergsson og Birkir Karl Sigurðsson fylgja á eftir með 1,5 vinning.

                        

Í opna flokknum hafa fjórir keppendur fullt hús vinninga; Björn Hólm Birkisson sem vann Sóleyju Lind Pálsdóttur nokkuð óvænt, Hilmir Hrafnsson sem lagði Bárð Örn Birkisson, einnig nokkuð óvænt, Hjálmar Sigurvaldason sem hafði betur gegn Mikhaylo Kravchuk og Heimir Páll Ragnarsson sem vann Braga Þór Thoroddsen.  Forystusauðirnir mætast innbyrðis í þriðju umferð.

 

Þriðja umferð fer fram næstkomandi sunnudag og hefst kl. 14.00 og eru áhorfendur velkomnir en aðstæður í Skákhöll T.R. eru að venju hinar bestu.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Bein útsending