Friðsamt á efstu borðum Haustmótsins



Einar Hjalti Jensson (2362) og Magnús Pálmi Örnólfsson (2227) eru efstir og jafnir á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur að loknum 4 umferðum með 3,5 vinning. Á hælum þeirra með 3 vinninga eru Hjörvar Steinn Grétarsson (2567), Þorvarður Fannar Ólafsson (2164), Oliver Aron Jóhannesson (2272), Jóhann H. Ragnarsson (2032) og Björgvin Víglundsson (2137).

Einar Hjalti tók yfirsetu í 4.umferð og missti þar með sinn fyrsta hálfa vinning eftir að hafa byrjað mótið óaðfinnanlega. Magnús Pálmi nýtti tækifærið og náði Einari Hjalta að vinningum með því að sigra Ólaf Guðmarsson (1721) með svörtu mönnunum. Á sama tíma varð Hjörvar Steinn að gera sér að góðu jafntefli gegn Þorvarði Fannari. Sömu úrslit urðu í viðureign Olivers og Björgvins. Á sjö efstu borðunum unnust einungis tvær skákir; áðurnefndur sigur Magnúsar Pálma á Ólafi sem og sigur Jóhanns gegn Tryggva K. Þrastarsyni (1325).

20170913_193511

Joshua Davíðsson (1414) tefldi vel gegn Herði Aroni Haukssyni (1859) og uppskar fyrir vikið jafntefli, en á þeim munar 445 skákstigum. Joshua hefur 2,5 vinning. Benedikt Þórisson (1065) nældi sér í sterkan vinning gegn Ármanni Péturssyni (1288) og sýnir með því að góð æfingasókn og mikil taflmennska skilar sér alltaf í góðum árangri við skákborðið. Benedikt hefur hlotið 2 vinninga í skákunum fjórum.

Haustmótið heldur áfram næstkomandi föstudagskvöld er 5.umferð verður tefld. Þá mætast Magnús Pálmi og Oliver Aron á efsta borði, Björgvin og Hjörvar Steinn á öðru borði og loks Þorvarður Fannar og Jóhann á þriðja borði. Einar Hjalti tekur sína aðra yfirsetu í röð.

Skákir fyrstu fjögurra umferðanna hafa þegar verið slegnar inn af Daða Ómarssyni.

 

Úrslit, staða og pörun #5 umferðar: Chess-results

Skákir HTR (pgn): #1#2, #3, #4 (Skrá #3 umferðar inniheldur leiðréttar skákir #1 og #2 umferðar).