Friðgeir efstur á U-2000 mótinuÞegar fjórum umferðum af sjö er lokið á U-2000 móti TR er gamla brýnið, Friðgeir Hólm, efstur með 3,5 vinning. Næstir með 3 vinninga koma Arnaldur Bjarnason, Haraldur Baldursson og Björn Hólm Birkisson en Haraldur á inni frestaða skák og getur því náð efsta sætinu.

IMG_7554

Alexander Oliver Mai er á hraðri uppleið.

Í fjórðu umferð sigraði Friðgeir unglingameistara TR, Aron Þór Mai, Björn Hólm lagði Gauta Pál Jónsson með laglegri fléttu í lok skákar og þá vann Arnaldur Jón Þór Lemery.  Í mest spennandi viðureign fjórðu umferðar var Sigurjón Haraldsson ljónheppinn að ná sigri gegn hinum unga og efnilega Alexander Oliver Mai en stigamunur þeirra í milli er meira en 500 Elo-stig.  Alexander tefldi virkilega góða skák og hafði góða möguleika á sigri en undir lokin má segja að reynsla Sigurjóns hafi vegið þungt og eftir liðstap var hinn ungi Alexander tilneyddur að leggja upp laupana.

Fimmta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst hún kl. 19.30.  Pörun umferðarinnar mun liggja fyrir á mánudagskvöld þegar úrslit í frestaðri viðureign Haraldar og Jóhanns Arnars Finnssonar eru ljós.