Friðarpípan tendruð í 8.umferð Skákþingsins



Í gærkvöldi var tefld 8.umferð í Skákþingi Reykjavíkur. Spennan fyrir umferðina var mikil enda forystusauðirnir að mætast á efsta borði og stutt í að til tíðinda dragi í toppbaráttunni. Taugar teflenda voru þandar til hins ýtrasta og er á reyndi enduðu þrjár skákir á fjórum efstu borðunum með jafntefli.

Skák stórmeistarans vörpulega Stefáns Kristjánssonar (2492) og alþjóðlega meistarans Jóns Viktors Gunnarssonar (2433) hafði alla burði til að halda áhorfendum við efnið í Faxafeninu í gærkvöldi, en skákmeistararnir kæfðu fljótlega allar væntingar þess efnis. Þeir mættu á inniskónum í þennan bardaga og brugðu ekki sverði. Niðurstaðan varð stutt jafntefli og reyndist það byr í segl keppinauta þeirra á næstu borðum.

Dagur Ragnarsson (2059) og Mikael Jóhann Karlsson (2077) mættust á 2.borði og gerðu þeir líka jafntefli. Þeim mistókst því að nýta sér jafnteflið á 1.borði til að jafna Stefán og Jón Viktor að vinningum í efsta sæti. Engu að síður geta þeir báðir unað vel við sína framgöngu í mótinu; Mikael með frammistöðu sem samsvarar 2339 skákstigum og Dagur með frammistöðu upp á 2217 skákstig.

Á 3.borði lét hinn hæverski húnn, Björn Þorfinnsson (2373), ekki happ úr hendi sleppa. Hann stýrði hvítu mönnunum til sigurs gegn hinum geðþekka Grafarvogspilti Oliver Aron Jóhannessyni (2170) og náði þar með friðarsinnunum Stefáni og Jóni Viktori að vinningum. Björn hefur nú unnið fjórar skákir í röð og er til alls líklegur í síðustu umferðinni.

Óvæntustu úrslit kvöldsins litu dagsins ljós á 4.borði hvar hinn herðabreiði Örn Leó Jóhannsson (2048) gerði jafntefli við lífskúnstnerinn Guðmund Gíslason (2315) með svörtu mönnunum. Örn Leó hefur teflt vel það sem af er móti og eygir nú möguleika á að rjúfa 2100 stiga múrinn á næstu mánuðum.

Þá stýrði Jón Trausti Harðarson (2067) svörtu mönnunum til sigurs á 5.borði gegn Stefáni Bergssyni (2085). Sterkur sigur hjá Jóni Trausta sem hefur teflt vel í Skákþinginu og hefur piltur nú þegar nælt sér í tæplega 40 skákstig.

Hinum áhugasama skákpilti Alexander Oliver Mai (1105) hefur vaxið ásmegin undanfarnar vikur og ber taflmennska hans þess glöggt merki. Þrátt fyrir ágæta framgöngu við taflborðið í upphafi móts létu góð úrslit á sér standa. Drengurinn lét þó engan bilbug á sér finna og hélt sínu striki. Það hefur nú skilað sér í tveimur mjög öflugum jafnteflum gegn skákmönnum sem eru 350 skákstigum hærri en hann sjálfur. Í gærkvöldi gerði Alexander Oliver jafntefli við kollega sinn úr TR Mykhaylo Kravchuk (1462). Alexander Oliver gefur því bróður sínum, Aroni Þór Mai, lítið eftir en báðir eru þeir að taka stórstígum framförum. Og skyldi engan undra því þeir bræður eru mjög duglegir að mæta á skákæfingar hjá TR og vinna þeir ávallt samviskusamlega þau verkefni sem fyrir þá eru lögð. Auk þess tefla þeir í flestum kappskákmótum sem blásið er til. Gott ef þarna leynist ekki uppskriftin að hröðum framförum ungra skákmanna.

Að loknum átta umferðum eru þrír vaskir kappar efstir og jafnir með 6,5 vinning; Stefán Kristjánsson, Jón Viktor Gunnarsson og Björn Þorfinnsson. Þrír ungir sveinar sem líklegir eru til afreka á næstu árum eru skammt undan með 6 vinninga; Dagur Ragnarsson, Mikael Jóhann Karlsson og Jón Trausti Harðarson. Þá eru upptaldir þeir keppendur sem eygja von um sigur í mótinu. Aðrir sem færri vinninga hafa eru vafalítið enn í hörkubaráttu um að ná sínum persónulegu markmiðum. Því má fastlega búast við að ekkert verði gefið eftir við taflborðin í síðustu umferð Skákþingsins.

Næstkomandi sunnudag verður svo níunda og jafnframt síðasta umferð Skákþingsins tefld. Reikna má við svakalegum rimmum á mörgum borðum því nú eru síðustu forvöð fyrir keppendur að láta ljós sitt skína. Toppbaráttan verður æsispennandi enda margar athygliverðar skákir á matseðlinum. Á 1.borði stýrir TR-ingurinn Jón Viktor Gunnarsson hvítu mönnunum gegn TR-ingnum Birni Þorfinnssyni í sannkölluðu innanfélagsstríði þar sem í húfi er sigur á Skákþingi Reykjavíkur. Má búast við að þegar nær dregur endalokum taflsins muni eldtungur standa út um granstæði þeirra félaga. Ljóst er að formaður TR, hinn skeleggi Björn Jónsson, mun vera í viðbragðsstöðu á hliðarlínunni með slökkvitækið til að slökkva þá elda sem kunna að kvikna. Á 2.borði hefur Mikael Jóhann Karlsson hvítt gegn Stefáni Kristjánssyni. Veðbankar eru á einu máli um að Stefán muni leggja Mikael að velli og tryggja sér efsta sæti mótsins. Mikael er þó sýnd veiði en ekki gefin og hefur áður sýnt að hann er hvergi banginn við stigaháa titilhafa. Pilturinn hefur teflt geysilega vel það sem af er móti og gæti hæglega gert stórmeistaranum skráveifu. Á 3.borði er einkar áhugaverð glíma hvar Jón Trausti Harðarson leiðir hvítu mennina fram til bardaga gegn Degi Ragnarssyni. Á meðan þessi viðureign fer fram er allt eins líklegt að götur Grafarvogs verði mannlausar, enda munu íbúar þar vafalítið fylgjast með taflinu með öndina í hálsinum. Taflið hefst stundvíslega klukkan 14 í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12. Sem fyrr eru áhorfendur hjartanlega velkomnir.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Myndir
  • Skákirnar
  • Skákþing Reykjavíkur 2014
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur