Framúrskarandi geðheilbrigði í Faxafeninu



Leikgleðin var í fyrirrúmi í Faxafeninu þann 12.október síðastliðinn er Alþjóða geðheilbrigðismótið var haldið. Líkt og undanfarin ár var mótið haldið í samstarfi við Vinaskákfélagið en þar slá taktinn Róbert Lagerman og Hörður Jónasson. Þeir félagar hafa þróað mótið síðustu ár og skipar það nú fastan sess í skákmótahaldi hvers árs.

Þátttakendurnir 35 geisluðu af framúrskarandi geðheilbrigði og var léttleikinn í fyrirrúmi þó taflstöðurnar væru stundum torskildar og efiðar viðureignar. Þó aðeins einn sigurvegari hafi verið krýndur þetta kvöld þá héldu margir heim á leið með sigurtilfinningu í farteskinu, engin þó með meiri sigurtilfinningu en sigurvegarinn sjálfur Örn Leó Jóhannsson. Örn Leó nældi sér í 7 vinninga í skákunum 9 líkt og Bárður Örn Birkisson en Örn Leó var hærri á stigum. Bárður Örn hreppti því silfurverðlaunin og var hann hálfum vinningi á undan þremur fræknum köppum, þeim Vigfúsi Ó. Vigfússyni, Daða Ómarssyni og Róberti Lagerman. Vigfús varð hlutskarpastur þeirra þriggja eftir stigaútreikning og fékk að launum bronsverðlaun.

Vigfús lék á alls oddi í Faxafeninu þetta kvöld. Hann hóf keppni á hörkuviðureign gegn Skottu þar sem Vigfús hafði betur. Hann vann í 2.umferð en laut í gras gegn Degi Ragnarssyni í 3.umferð. Þá var sem á Vigfús rynni æði og gekk hann berserksgang á taflborðunum í Faxafeni og skyldi eftir sig næstu fimm andstæðinga í sárum. Á meðal fórnarlamba var sigurvegari mótsins, Örn Leó. Vigfúsi varð hins vegar fótaskortur í lokaumferðinni gegn Bárði Erni og missti þar með af gullverðlaununum. Sárabæturnar voru silfur um hálsinn og 52 hraðskákstig í vasann.

20171012_220925

Verðlaunahafar Alþjóða geðheilbrigðismótsins 2017: Vigfús Ó. Vigfússon, Bárður Örn Birkisson og Örn Leó Jóhannsson.

Ungu mennirnir létu ekki sitt eftir liggja og sumir hjuggu skörð í sjálfsmynd þeirra eldri. Fóru þar fremstir í flokki Alexander Oliver Mai og Benedikt Briem. Alexander Oliver fylgdi eftir stórkostlegri frammistöðu á nýafstöðnu skákmóti á Mön með því að hala inn 6 vinninga og tryggja sér 6.sætið. Hann varð jafnframt efstur 16 ára og yngri og hækkaði um 56 hraðskákstig. Á meðal fórnarlamba hans var FIDE-meistarinn Dagur Ragnarsson. Benedikt Briem reyndist hástökkvari mótsins. Hann fékk 5,5 vinning og hækkar um 72 hraðskákstig. Hann lagði Pál Andrason í lokaumferðinni í hörkuskák en á þeim munar hvorki meira né minna en 739 hraðskákstigum.

20171012_195934

Tómas Ponzi og Finnur Kr. Finnsson áttust við í 2.umferð.

Eldri skákmenn áttu vitaskuld sína fulltrúa. Í flokki 60 ára og eldri varð Jón Úlfljótsson hlutskarpastur með 4,5 vinning. Aldursforseti mótsins var hinn síungi 82 ára gamli Finnur Kr. Finnsson. Það er ávallt mikið gleðiefni þegar hinn brosmildi Finnur teflir með okkur í Faxafeninu. Það er ekki eingöngu hin smitandi kátína Finns sem gleður okkur, heldur líka það að ungir skákmenn hafa ákaflega gott af því að kynnast eldri skákmönnum og tefla við þá. Íslensk skákhreyfing mætti leggja meiri áherslu á að leiða kynslóðirnar saman við taflborðin.

Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til Vinaskákfélagsins, þá sérstaklega til Harðar Jónassonar og Róberts Lagerman, fyrir vel heppnaðan viðburð og ánægjulegt samstarf.

 

ÚRSLIT OG STAÐA