Fjórir efstir og jafnir í Bikarsyrpu helgarinnar



20171029_180810

Blikapilturinn knái, Gunnar Erik Guðmundsson, sigraði í þriðja móti Bikarsyrpu TR sem fram fór um nýliðna helgi. Eftir æsispennandi lokasprett þar sem síðustu skákinni lauk ekki fyrr en að ganga sjö að kveldi sunnudags varð úr að hvorki fleiri né færri en fjórir keppendur komu jafnir í mark með 5,5 vinning af sjö mögulegum. Ásamt Gunnari voru það Benedikt Briem, Magnús Hjaltason og Kristján Dagur Jónsson. Gunnar var sjónarmun á undan Benedikt sem hlaut annað sætið, en aðeins munaði hálfu mótsstigi (samanlagðir vinningar andstæðinga) á þeim félögum. Þriðja sætið féll svo Magnúsi í skaut en Kristján Dagur var mjög skammt undan. Efst stúlkna var Batel Goitom Haile sem dró 5 vinninga að landi þrátt fyrir að missa af einni umferð. Ekki langt á eftir, með 4,5 vinning, komu liðsfélagar Batel hjá TR, þær Ásthildur Helgadóttir og Anna Katarina Thoroddsen.

20171029_160255

Bikarsyrpuhelgarnar eru langar og strangar en að sama skapi sérlega skemmtilegar og spennandi ásamt því að vera mikilvægar fyrir börnin sem fá dýrmæta reynslu og góða æfingu. Mótið nú var hið fjölmennasta í tvö ár, og raunar það næstfjölmennasta frá upphafi Bikarsyrpunnar, en alls tóku þátt 33 efnilegir skákkrakkar og var ánægjulegt að sjá að þriðjungur þeirra var stúlkur. Þá voru 60% keppenda stigalaus, þ.e. ekki komin inn á hinn rómaða Elo-stigalista, en það er töluverð aukning eftir að þeim hafði fækkað fullmikið. Bikarsyrpumótin eru nefnilega prýðis tækifæri fyrir þau börn sem eru styttra á veg komin í skáklistinni til að bæta sig gegn hinum reyndari.

20171029_100422

Allt mótahald fór vel fram og voru börnin til mikillar fyrirmyndar við skákborðin jafnt sem utan þeirra og fá þau þakkir fyrir sína þátttöku. Foreldrar og forráðamenn eiga líka hrós skilið fyrir sína aðkomu enda ekki sjálfgefið að taka heila helgi undir stífa taflmennsku. Ástundunin skilar sér þó margfalt til barnanna – það sjá þeir best sem mest fylgjast með, bæting þeirra við skákborðin er óumdeilanleg.

Sjáumst í næsta móti, helgina 16.-18. febrúar!

  • Öll úrslit helgarinnar má sjá hér og þá er stór hluti skákanna aðgengilegur hér