Fjölmennt U-2000 mót hófst í gær



IMG_20191016_194947

U-2000 mótið er vel skipað.

Metþátttaka er í U-2000 mótinu sem fór af stað í gærkveld og voru skákstórar himinlifandi með þátttökuna. 62 keppendur mættu til leiks, þar af 12 stelpur og konur sem er um fimmtungur keppenda, og er tvöfalt meira en gengur og gerist í vestur-Evrópu. Nokkrar af þessum konum munu án efa blanda sér í toppbaráttuna. Margar mjög ungar stelpur sem og strákar gáfu þeim reyndari lítið eftir og börðust langt fram á kvöld með góðum árangri. Einn áhorfenda vildi gjarnan skrá sig í mótið eftir fyrstu umferð en sá hafði fylgst með mörgum skemmtilegum skákum og fór að klæja í puttana af spenningi.

Flestar viðureignir enduðu þó með sigri þess reyndari / stigahærri – en með undantekningum. Batel Goitom Haile mætti Haraldi Haraldssyni – sigurvegara síðasta U-2000 móts – á fyrsta borði og hélt jöfnu án mikilla vandræða. Guðmundur Orri Sveinbjörnsson, fæddur 2009 og stigalaus, samdi jafntefli við Sveinbjörn Jónsson en erfitt var að meta hvor þeirra væri ánægðari. Þorsteinn Magnússon hinn eldri (f. 1976) tefldi æsilega skák við Kristján Dag Jónsson en eftir að kóngur hvíts hafði lifað af umsátur skipti skákin um eiganda og Þorsteinn vann að lokum lærdómsríkt peðsendatafl. Mikael Bjarki Heiðarsson, einnig fæddur 2009, tefldi eina af betri skákum kvöldsins. Honum tókst að reka kóng Páls Þórssonar upp á miðborðið en missti því miður  af máti í tveimur og tapaði að lokum endataflinu.

Batel og Haraldur gerðu jafntefli á efsta borði.

Batel og Haraldur gerðu jafntefli á efsta borði.

Birnu-kaffi var á sínum stað þar sem Birna og Ólafur sáu um ríkulegt framboð af góðgæti.

Önnur umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst á slaginu 19.30. Öll úrslit ásamt stöðu og pörun má nálgast á Chess-Results.