Fjölmennasta Jólaskákmót TR og SFS frá upphafi!



Árlegt Jólaskákmót Taflfélags Reykjavíkur og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur var haldið dagana 1.-2.desember síðastliðinn. Líkt og síðustu ár var mótið afar vel sótt, bæði af ungum skákmönnum sem og gestum. Alls tefldu 50 skáksveitir á mótinu sem er metþátttaka, en í fyrra var einnig sett þátttökumet þegar 44 skáksveitir öttu kappi.

Mótið í fyrra heppnaðist frábærlega sem hefur vafalítið átt þátt í því hve margar skáksveitir tóku þátt að þessu sinni, en ekki má heldur gleyma því að skákstarf í skólum og taflfélögum borgarinnar er með blómlegasta móti þessi misserin. Áætlað er að hátt í 300 manns hafi heimsótt Taflfélag Reykjavíkur þá tvo daga sem mótið stóð yfir. Yngri flokkur reið á vaðið á sunnudeginum en þeir eldri settust við skákborðin daginn eftir.

Yngri flokkur – opinn flokkur

Yngstu skákmennirnir tefldu í tveimur riðlum; Norður riðli og Suður riðli. Það fyrirkomulag var tekið upp í fyrra enda stækkar mótið ár frá ári.  Þessi tvískipting yngri flokks hefur gefist vel og gengu mótin afar vel þrátt fyrir þennan mikla fjölda keppenda.

Suður riðill hófst klukkan 10:30 og voru margar sterkar skáksveitir skráðar til leiks. Í opnum flokki fór þar fremst a-sveit Ölduselsskóla sem mætti til leiks grá fyrir járnum með reynslumikla og sterka skákpilta á öllum borðum. Bjuggust flestir við að Ölduselsskóli myndi vinna riðilinn og tryggja sér annað af tveimur sætum í úrslitakeppni yngri flokks sem fyrirhuguð var daginn eftir. Það fór enda svo að Ölduselsskóli sigraði með miklum yfirburðum og fékk hvorki fleiri né færri en 23 vinninga í 24 skákum. Frábær árangur hjá þessari vösku sveit sem á svo sannarlega framtíðina fyrir sér, enda liðsmenn enn ungir að árum og munu tefla í yngri flokki næstu árin.

Baráttan um 2.sætið var æsispennandi og er þá vægt til orða tekið. Fyrir síðustu umferð hafði a-sveit Háteigsskóla 1,5 vinnings forskot á a-sveit Norðlingaskóla, en svo skemmtilega vildi til að sveitirnar mættust í síðustu umferðinni. Norðlingaskóli þurfti að vinna þá viðureign 3-1 til að tryggja sér 2.sætið og næla sér í sæti í úrslitakeppninni. Að loknum þremur skákum leiddi Norðlingaskóli 2-1 og stóð auk þess til vinnings í síðustu skákinni. Eftir mikinn barning reyndust þó lukkudísirnar á bandi Háteigsskóla þegar liðsmaður Norðlingaskóla varð fyrir því óláni að patta andstæðing sinn þegar stutt var í mátið. Þar með lauk viðureigninni með sigri Norðlingaskóla 2,5-1,5, en það dugði Háteigsskóla hins vegar til að halda 2.sætinu. Háteigsskóli endaði með 16 vinninga en Norðlingaskóli varð í 3.sæti með 15,5 vinning. Þess má til gamans geta að það var einmitt Norðlingaskóli sem kom í veg fyrir að Ölduselsskóli sigraði með fullu húsi.

Norður riðill hófst klukkan 14:00 og voru nokkuð fleiri sveitir skráðar til leiks þar samanborið við Suður riðil. Á meðal sterkra skáksveita í Norður riðli var a-sveit Rimaskóla sem átti titil að verja en auk hennar var a-sveit Fossvogsskóla vel skipuð og til alls líkleg. Þessar tvær sveitir voru í nokkrum sérflokki og tryggðu þær sér báðar sæti í úrslitakeppninni. Sveit Rimaskóla varð hlutskörpust með hvorki fleiri né færri en 23 vinninga í 24 skákum. Munaði þar mestu um glæsilegan sigur sveitarinnar í 3.umferð gegn helstu keppinautum sínum í Fossvogsskóla, 4-0.

Það voru einmitt þessir 4 vinningar sem skyldu liðin að. Fossvogsskóli endaði í 2.sæti með 19 vinninga og a-sveit Ingunnarskóla nældi sér í 3.sæti með 16,5 vinning.

Úrslitakeppni yngri flokks

Það skein mikil eftirvænting úr augum þeirra 16 keppnismanna sem tefldu fyrir hönd sinna skóla í úrslitakeppni yngri flokks. Spennustigið var hátt en einbeitingin góð. Fyrirfram mátti búast við harðri baráttu Rimaskóla og Ölduselsskóla um sigurinn í mótinu. Líklegt var að innbyrðis viðureign þeirra myndi fara langt með að ráða úrslitum í mótinu. Eftir að dregið hafði verið um töfluröð var ljóst að Rimaskóli og Ölduselsskóli áttu að mætast í 1.umferð. Viðureignin stóð svo sannarlega undir væntingum og var alls ekki fyrir hjartveika. Eftir mikla baráttu og sviptingar hafði Rimaskóli sigur í viðureigninni 2,5-1,5.

Hin reynslumikla sveit Rimaskóla steig ekki feilspor eftir það og vann bæði Fossvogsskóla og Háteigsskóla 4-0. Rimaskóli stóð því uppi sem verðugur sigurvegari í yngri flokki og varði því titil sinn frá því í fyrra. Sveitin var leidd áfram af hinni reynslumiklu skákdrottningu Nansý Davíðsdóttur sem sýndi styrk sinn í úrslitakeppninni, einkum og sér í lagi þegar stöðurnar voru tvísýnar og lítið eftir á klukkunni. Strákarnir höfðu ekki roð við henni í þeim aðstæðum. Sveit Ölduselsskóla hafnaði í 2.sæti eftir örugga sigra á Fossvogsskóla og Háteigsskóla. Fossvogsskóli nældi í 3.sætið með sigri á Háteigsskóla 3-1.

Yngri flokkur – Stúlkur

Í stúlknaflokki voru tvær sveitir efstar og jafnar með 13 vinninga; Melaskóli og Breiðholtsskóli. Því þurfti að grípa til stigaútreiknings til að fá fram sigurvegara og þá kom í ljós að skáksveit Melaskóla hafði hlotið efsta sætið en Breiðholtsskóli varð í 2.sæti. Í 3.sæti varð stúlknasveit Rimaskóla en hún hlaut 12,5 vinning. Skammt þar á eftir kom Ingunnarskóli með 11 vinninga.

Eldri flokkur – opinn flokkur

Í eldri flokki skráðu sig til leiks níu skáksveitir frá fimm skólum. Keppni í opnum flokki reyndist æsispennandi, en fyrirfram var búist við miklu af sveitum Rimaskóla, Laugalækjarskóla og Árbæjarskóla. Þessar þrjár sveitir fylgdust að í toppbaráttunni nánast allt mótið og voru innbyrðis viðureignir þeirra oftar en ekki æsispennandi. Í seinni hluta mótsins varð sveit Rimaskóla þó fyrir nokkrum skakkaföllum er tveir liðsmenn þurftu frá að hverfa, og tefldi sveitin meðal annars á þremur mönnum undir lokin. Það varð til þess að sveitin dróst eilítið aftur úr forystusauðunum og endaði að lokum í 3.sæti með 17 vinninga. Árbæjarskóli og Laugalækjarskóli mættust í næstsíðustu umferð í spennuþrunginni viðureign þar sem Laugalækjarskóli hafði sigur 3-1. Sá sigur reyndist piltunum í Laugalækjarskóla einkar mikilvægur því þeir náðu 1,5 vinnings forskoti fyrir síðustu umferð. Árbæjarskóli var þó ekki af baki dottinn og vann góðan 4-0 sigur í síðustu umferð.

Laugalækjarskóli hélt þó velli og vann sína viðureign 3-1. Laugalækjarskóli stóð því uppi sem sigurvegari í eldri flokki með 18,5 vinning, en Árbæjarskóli kom í humátt á eftir með 18 vinninga. Rimaskóli varð sem fyrr segir í 3.sæti með 17 vinninga.

Eldri flokkur – Stúlkur

Í stúlknaflokki voru tvær sveitir skráðar til leiks; Breiðholtsskóli og Rimaskóli. Sveit Rimaskóla reyndist sterkari er upp var staðið og hlaut sveitin 10 vinninga. Fráfarandi jólameistarar Beiðholtsskóla nældu sér í 8,5 vinning.

Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til þeirra fjölmörgu barna og unglinga sem lögðu leið sína í húsakynni félagsins og gerðu Jólamót TR og SFS að þeirri frábæru skákveislu sem raunin varð. Vöskum liðsstjórum skáksveitanna 50 sem og foreldrum og öðrum gestum eru jafnframt færðar miklar og góðar þakkir fyrir samveruna.  Sérstakar þakkir fær Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar fyrir frábært samstarf, sem og Skákakademía Reykjavíkur sem annast kennslu í fjölmörgum skólum borgarinnar.

Við hlökkum til að sjá ykkur öll aftur að ári, og vonandi fleiri til!

Nánari úrslit í riðlunum tveimur í yngri flokk, sem og úrslit í yngri og eldri flokk má sjá hér að neðan.