Fiske

Daniel Willard Fiske

Daniel Willard Fiske fæddist 11. nóvember 1831 í Ellisburg, New York ríki. Hann gekk menntaveginn þar vestanhafs, en ungur ákvað hann að halda til Danmerkur til náms í norrænum fræðum. Hann varð fljótt félaus og hóf því sjómennsku, en stundaði einnig blaðamennsku og enskukennslu.

En í Kaupmannahöfn kynntist Fiske nokkrum Íslendingum, þeirra á meðal Jóni Sigurðssyni forseta, sem vísast hefur blásið honum í brjóst áhuga fyrir land og þjóð Mörlandans norður í Ballarhafi, og Gísla Brynjólfssyni fræðimanni, sem kenndi honum íslensku endurgjaldslaust. Þetta var á árunum 1847-48.

Bogi Th. Melsted sagnfræðingur, í bók sinni um Fiske frá 1907, telur, að Gísli hafi þó haft mun meiri áhrif á Fiske og vakið hjá honum þann óslökkvandi Íslandsáhuga, sem einkenndi hann allar götur síðan.

En alveg eins líklegt er, og e.t.v. enn líklegra, að það hafi verið Jón Sigurðsson, sem hafi verið helsti áhrifavaldurinn að baki Íslandsáhuga Fiskes. Góðvinur Jóns, dr. Konrad Maurer, sem síðar var gjarnan nefndur í sömu andránni og Willard Fiske þegar erlendir “Íslandvinir” voru nefndir, komst a.m.k. í kynni við Fiske og urðu þeir síðan hinir mestu mátar. Vinátta þeirra hélst allt þangað til Maurer lést og skrifaði þá Fiske minningargreinar um hann, m.a. í íslensk blöð.

Ólíklegt er, að Fiske hafi komist í kynni við Maurer öðruvísi en fyrir milligöngu hins sameiginlega vinar þeirra, Jóns Sigurðssonar. Á þjóðhátíðarárinu 1874 vitnar Þjóðólfur í Fiske, sem segir, að Jón Sigurðsson sé meðal merkustu manna Evrópu um þær mundir, jafnoki hins breska William Ewart Gladstones, sem var forsætisráðherra Breta 1868-1874 og nokkrum sinnum eftir það.

Heim til Bandaríkjanna

En Fiske lauk alltjént námi, sem hann stundaði bæði í Kaupmannahöfn og Uppsölum, og hóf störf heima fyrir. 1868 var hann ráðinn bókavörður við Cornell-háskólann í Íþöku í New York ríki, sá fyrsti, sem slíku starfi gengdi. Hann var jafnframt prófessor og talinn sérfræðingur í málefnum Norður-Evrópu, sér í lagi Norðurlandanna.

Og þegar kom að Íslandi, var Willard Fiske óskoraður sérfræðingur í fræðaheimi Bandaríkjanna. Líkast til hefur hann þá verið eini fræðimaðurinn, sem talaði íslensku og hafði vit á málefnum þessarar litlu eyju lengst í norðri.

Fiske hafði þá þegar orðið sér úti um bókadellu á háu stigi og safnaði bókum eins og ekkert væri sjálfsagðara í lífinu. Hann hafði m.a. mikinn áhuga á norrænum bókmenntum og keypti íslenskar bækur, þegar svo bar við, vísast í gegnum gamla vini sína í Kaupmannahöfn eða Konrad Maurer í Þýskalandi.

En í öllu falli komst Fiske til þekkingar á Íslandi og lærði íslensku vel. Vísast hafa fáir útlendingar, sem ekki bjuggu á Íslandi, kunnað betri íslensku en Willard Fiske á þessum tíma, nema þá vinur hans Konrad Maurer.

Fiske og stofnun T.R.

Taflfélag Reykjavíkur var stofnað 6. október 1900 í húsi Jóns Sveinssonar, um það bil á horni Pósthússtrætis og Kirkjustrætis.

Félagið var alls ekki burðugt til að byrja með. Þrátt fyrir, að stofnendur þessi hafi verið úr efri stéttum Reykjavíkur, voru fjárráð afar takmörkuð, eins og jafnan hefur verið síðan. Taflfélagsmenn gátu þó reitt sig á stuðning Daniel Williard Fiskes, hins mikla velgjörðarmanns íslenskra skákmanna og skákarinnar almennt hér á landi. Það var fyrst og fremst fyrir hans tilstilli, að Taflfélag Reykjavíkur var stofnað og hitt, að það lifði af fyrstu árin.

Pétur Zóphóníasson, sem gekkst fyrir stofnun T.R., hafði einmitt farið að hitta Fiske, áður en hann hélt til Íslands og rætt málin við hann. Óhætt er að fullyrða, að Fiske hafi verið með í ráðum, þegar Taflfélagið var stofnað og jafnvel verið þess það hvetjandi, að Pétur hafi þorað að hrinda félaginu af stokkunum. En hvað sem þessu leið hafði ekki langur tími liðið frá stofnun T.R., þegar sending barst frá Fiske. Útilokað er, að Fiske hefði getað sent Taflfélaginu þessa höfðinglegu gjöf sína þá, nema að hafa vitað um stofnun þess fyrirfram.

Í Ísafold 15. desember eru málefni Taflfélagsins rædd, enda var Ólafur Björnsson, Jónssonar ritstjóra, einn af stofnendum félagsins. Þar segir, að Taflfélag Reykjavíkur heiti “nýjasta félagið hér í höfuðstaðnum – eða annað nýjasta. Þau fæðst sem sé minst 10 um árið.”

Stjórnin sé vel skipuð þeim Sigurði Jónssyni fangaverði, Sturlu Jónssyni kaupmanni og Pétri Zóphóníassyni verslunarmanni. Stofnendur hafi verið um 30. Félagið haldi fundi sína einu sinni í viku, á laugardagskvöldum kl. 20.00.

“Var þegar allmikið fjör í félaginu, en þó glaðnaði það mikið er “Ceres” kom með stórmiklar gjafir handa því frá hinum alkunna Íslandsvin, prófessor W. Fiske í Flórenz. Það voru bækur fyrir 200 ríkismörk, 8 taflborð með mönnum, tvenn verðlaun og 5 pund (90 kr.) í peningum. Hann er hinn mesti frömuður tafllistarinnar og hefir áðir gefið hingað til lands mikið af töflum. En nú tvenn verðlaun heitin, önnur þeim, er býr til bezta taflraun en hin fyrir best teflt tafl, og á hvorttveggja að birtast í “Deutsche Schaczeitung”.”

Félagið hafði verið stofnað í húsi Jóns Sveinssonar og þar hélt það fundi sína, nánar tiltekið í kaffisölu Sigríðar, dóttur Sigurðar formanns Jónssonar. Þar fékk Taflfélagið að halda “fundi” og borgaði litla leigu, en skákmennirnir urðu að “kaupa eitthvað”, segir Pétur Zóphóníasson í grein sinni um upphafsár T.R. í 50 ára afmælisriti félagsins.

Grundvöllur skákiðkunar var, að eiga töfl. Í fyrstu var lítið af slíku til. Taflmenn fundust en engin taflborð, svo félagarnir bjuggu til borð úr pappa og voru þau notuð í mörg ár. Það sýnir áhugann, að hin 8 taflsett Fiskes voru ekki nægjanleg til að svara skákþörf T.R.inga á fyrstu misserunum. Og enn fremur þar eð Fiske hafði þegar gefið nokkur töfl.