Fimmtudagsmót TR hafin



Fyrsta fimmtudagsmót vetrarins fór fram í kvöld í Skákhöll TR.  Alls tóku 11 þátt og var keppnin æsispennandi en úrslit réðust ekki fyrr en í 7. og síðustu umferð þegar hraðskákmeistari TR, Kristján Örn Elíasson, skaust upp í efsta sætið ásamt Jon Olav Fivelstad eftir sigur á Sigurlaugu R Friðþjófsdóttur.  Kristján Örn varð svo efstur á stigum.  Björn Jónsson leiddi lengi vel en missti flugið undir lokin og slæmt tap gegn Magnúsi Kristinssyni í lokaumferðinni gerði út um sigurvonir hans.

Á ýmsu gekk í skákunum að vanda þegar hraðskák á í hlut en líklega verður atvik í skák Óttars Felix og Ólafs S Ásgrímssonar seint slegið en þá reyndi Ólafur afar frumlegt bragð til að rugla Óttar í ríminu.  Um miðbik skákarinnar ætlaði Ólafur að drepa biskup Óttars með sínum biskup en tók sinn út af borðinu og lagði biskup Óttars niður á nýjan reit í staðinn.  Þetta virtist rugla Óttar í ríminu, sem hugsaði í lengri tíma og virtist ekkert skilja í þessu nýja bragði.  Að lokum segir hann þó við Ólaf að þetta geti varla talist leikur og Ólafur gaf skákina í kjölfarið.  Hraðskákin getur sannarlega verið skrautleg!

Úrslit urðu annars eftirfarandi:

1. Kristján Örn Elíasson 5.5 v af 7 22 stig

2. Jon Olav Fivelstad 5.5 v 21,5 stig

3-4. Björn Jónsson, Magnús Kristinsson 5 v

5. Þórir Benediktsson 4,5 v

6. Sigurjón Haraldsson 3,5 v

7-9. Óttar Felix Hauksson, Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, Elsa María Kristínardóttir 3 v

10-11. Ólafur Ásgrímsson, Hjálmar Sigvaldason 2 v

Stjórn TR þakkar fyrir ánægjulegt mót og hvetur skákáhugamen til að mæta á næsta mót, fimmtudaginn 25. september.