Fimm með fullt hús á ÖðlingamótinuIMG_8061

Fide-meistarinn Sigurður Daði Sigfússon er stigahæstur keppenda.

Líkt og í fyrstu umferð Skákmóts öðlinga sáust athyglisverð úrslit í þeirri annari sem fór fram síðastliðið miðvikudagskvöld í notalegri stemningu í Skákhöll TR. Úrslit í viðureignum tveggja efstu borðanna voru þó eftir bókinni þar sem Sigurður Daði Sigfússon (2299) sigraði Kristján Örn Elíasson (1861) örugglega á fyrsta borði með svörtu þar sem tefldur var hinn hárbeitti skoski leikur. Hinn vígalegi og skeggjaði Kristján Örn fór snemma út á ótroðnar slóðir og hleypti skákinni upp eins og honum er einum lagið. Sigurður Daði tók því opnum örmum enda þekktur fyrir flest annað en að liggja í vörn á reitunum 64 og lagði hvítu mennina örugglega.

Á öðru borði lagði Þorvarður F. Ólafsson (2195) hinn margreynda Árna H. Kristjánsson (1894) sömuleiðis án mikilla vandræða en á þriðja borði vann Magnús Kristinsson (1822) núverandi Öðlingameistara, Einar Valdimarsson (2029), með svörtu í nokkurskonar furðuskák þar sem Einar fór fullgeyst í gambítum og mannsfórnum. Þá má nefna góðan sigur Kjartans Mássonar (1760) á nafna sínum Kjartani Maack (2110) og sigur Óskars Long Einarssonar (1691) á Bjarna Sæmundssyni (1870). Að auki voru gerð þrjú jafntefli þar sem stigamunur keppenda í milli var allnokkur.

Fimm keppendur hafa unnið báðar sínar viðureignir, en þeir eru, ásamt Sigurði Daða, Þorvarði og Magnúsi, Siguringi Sigurjónsson (1971) og Stefán Arnalds (2007).

tuxpi.com.1460134098

Núverandi Öðlingameistara, Einari Valdimarssyni, leiðist ekki að blása til sóknar. Hann fór þó fullgeyst að þessu sinni.

Þriðja umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30. Þá mætast m.a. Sigurður Daði og Siguringi, Stefán og Þorvarður, sem og Magnús og Ingi Tandri Traustason (1916). Áhorfendur velkomnir – alltaf heitt á könnunni. Skákirnar ásamt úrslitum og myndum frá mótinu má nálgast hér að neðan.