Einar Hjalti Jensson einn efstur á Haustmótinu



Það var hart barist á flestum borðum í dag er 3.umferð Haustmótsins var tefld. Á 1.borði og 3.borði náðu keppendur jafntefli gegn stigahærri andstæðingi og á 5.borði vann stigalægri keppandinn.

Hjörvar Steinn Grétarsson (2567) vann peð snemma tafls á efsta borði gegn Magnúsi Pálma Örnólfssyni (2227) og héldu gestir á kaffistofunni að stórmeistarinn myndi landa sigri í kjölfarið. Magnús Pálmi greip þá til þess ráðs -peði undir- að hleypa skákinni í endatafl með samlitum biskupum. Það var sem Bolvíkingurinn væri aftur kominn á heimaslóðir í gömlu góðu Sjómannastofuna þar sem endataflskver Paul Keres, Hagnýt endatöfl, var stúderað til hlítar. Skákin stóð yfir í nær 5 klukkustundir og tókst Magnúsi Pálma að halda taflinu jöfnu gegn stórmeistaranum.

Einar Hjalti Jensson (2362) var lengi vel peði yfir gegn Jóhanni H. Ragnarssyni (2032) en Jóhann hafði þó nokkrar bætur fyrir. Einar nýtti sér þó liðsmuninn og innbyrti vinninginn, sinn þriðja í þremur skákum. Á þriðja borði tefldu Björgvin Víglundsson (2137) og Loftur Baldvinsson (1963) og sættust þeir á skiptan hlut. Oliver Aron Jóhannesson (2272) tefldi sína fyrstu skák í mótinu er hann vann hinn unga og efnilega Árna Ólafsson (1217). Á 5.borði stýrði Ólafur Guðmarsson (1721) hvítu mönnunum til sigurs gegn Kristjáni Erni Elíassyni (1869).

Einar Hjalti er því einn efstur eftir þrjár umferðir með fullt hús. Sex skákmenn fylgja fast á eftir með 2,5 vinning. Einar Hjalti tekur yfirsetu í næstu umferð sem gefur keppinautum hans kjörið tækifæri til þess að ná honum að vinningum. 4.umferð Haustmótsins verður tefld næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst taflið klukkan 19:30.

Úrslit og staða: Chess-results

Skákir HTR (pgn): #1, #2, #3, #4, #5, #6, #7, #8, #9