Davíð, Þorvarður og Oliver efstir á Haustmótinu



Líkt og í fyrri umferðum Haustmótsins voru margar viðburðaríkar skákir tefldar í 3.umferð. Í A-flokki áttust við Davíð og Þorsteinn í magnaðri skák. Undir lokinn kom upp hvöss staða sem fáir áttuðu sig á og voru áhorfendur ekki á einu máli um hvor stóð betur. Reyndar var flækjustigið svo hátt að það væri með ólíkindum ef teflendur hefðu sjálfir áttað sig á öllum möguleikum stöðunnar. Skákin endaði að lokum með jafntefli sem tryggði Davíð áframhaldandi forystu í mótinu. Þorvarður og Oliver náðu Davíð þó að vinningum með sigrum í sínum skákum.

Í B-flokki heldur Björn Hólm Birkisson áfram hraustri taflmennsku þrátt fyrir að vera stigalægstur í flokknum. Hann gerði jafntefli við Dawid Kolka og hefur nú 2,5 vinning. Björn Hólm leiðir flokkinn ásamt Þjóðverjanum Christopher Vogel sem lagði Jón Þór Helgason að velli.

Í C-flokki leiðir stigahæsti keppandi flokksins, Bárður Örn Birkisson, með fullt hús eftir baráttusigur gegn Jóhanni Erni Finnssyni. Í humátt á eftir Bárði kemur Felix Steinþórsson en hann lagði Guðmund Agnar Bragason.

Í D-flokki, opna flokknum, leiða Ólafur Evert Úlfsson, Tryggvi K. Þrastarson og Alex Cambray Orrason, allir með fullt hús. Skammt á eftir kemur svo hinn ungi og bráðefnilegi Róbert Luu með 2,5 vinning.

Úrslit og stöðu í mótinu má nálgast hér.

4.umferð Haustmótsins verður tefld næstkomandi miðvikudagskvöld og verða klukkurnar settar í gang klukkan 19:30. Þá mætast í sannkölluðum toppslag í A-flokki Davíð og Þorvarður. Við hvetjum áhorfendur til að líta við í Faxafenið og fylgjast með fjörinu. Birna verður að sjálfsögðu á sínum stað með nýlagað kaffi og bakkelsi.