Davíð sigurvegari Haustmótsins, Hrafn skákmeistari TR



Davíð Kjartansson tryggði sér nú í kvöld sigur á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur 2008 þegar hann lagði Þór Valtýsson í lokaumferðinni.  Fyrr hafði Hrafn Loftsson komist vinningi fram fyrir Davíð eftir sigur á Jóni Árna Halldórssyni í flýttri skák en þeirri skák lauk afar slysalega þegar farsími Jóns hringdi í miðri skák.  Davíð varð því að innbyrða sigur í níundu og síðustu umferð til að ná Hrafni, sem hann og gerði en þeir urðu efstir og jafnir með 6,5 vinning en Davíð er hærri á stigum.

Hrafn Loftsson varði titil sinn frá því í fyrra og er Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2008 en hann hlaut hálfum vinningi meira en keppinautur hans, Torfi Leósson sem hafnaði í þriðja sæti með 5,5 vinning.

 

Keppni í b-flokki lauk ekki síður með mikilli dramatík en þar sigraði Jorge Fonseca Bjarna Jens Kristinsson í lokaumferðinni og náði Bjarna þar með á vinningafjölda en varð svo hærri á stigum og er því sigurvegari b-flokks með 6,5 vinning.  Stefán Bergsson og Helgi Brynjarsson höfnuðu í 3.-4. sæti með 5,5 vinning.

 

Ólafur Gísli Jónsson tryggði sér sigur í c-flokki með tiltölulega auðveldum sigri á Páli Sigurðssyni sem lék af sér í byrjuninni og fékk erfiða stöðu í kjölfarið.  Ólafur hlaut 7 vinninga, Matthías Pétursson varð annar með 6,5 vinning og jafnir í 3.-4. sæti urðu Patrekur Maron Magnússon og Páll Sigurðsson með 5 vinninga.

 

D-flokki lauk á ævintýralegan hátt því á meðan að Rafn Jónsson sigraði lauk skákum Barða Einarssonar og Harðar Haukssonar með jafnteflum.  Þetta þýddi að þeir þrír urðu efstir og jafnir með 6 vinninga hver.  Hinn ungi og efnilegi Hörður Aron Hauksson stóð þó uppi sem sigurvegari flokksins eftir stigaútreikninga, Barði Einarsson varð annar og Rafn Jónsson þriðji.

 

Í e-flokki sigraði Páll Andrason örugglega með 8 vinninga, annar varð Emil Sigurðarson með 7 vinninga en þrír urðu jafnir í 3.-5. sæti með 6 vinninga.

 

  • Öll úrslit og lokastöðu má nálgast á Chess-Results
  • Skákir mótsins
  • Myndir frá mótinu (Björn Jónsson smellti af)

 

Verðlaunaafhending fer fram sunnudaginn 23. nóvember en þá fer jafnframt fram hausthraðskákmót Taflfélags Reykjavíkur sem verður nánar auglýst síðar.