Björn Þorfinnsson Skákmeistari Reykjavíkur 2011



KORNAX mótinu 2011 – Skákþingi Reykjavíkur lauk í gær þegar níunda og síðasta umferðin var tefld í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur.  Mikil spenna var fyrir lokaumferðina því alþjóðlegi meistarinn, Björn Þorfinnsson (2430) og Hjörvar Steinn Grétarsson (2460), sigurvegari síðustu tveggja ára, voru efstir og jafnir með 7 vinninga.  Næstur þeim kom Fide meistarinn, Sigurbjörn Björnsson (2335) með 6,5 vinning en Hrafn Loftsson (2209) og Fide meistarinn, Ingvar Þór Jóhannesson (2350), fylgdu í humátt með 6 vinninga.

 

Það var því ljóst að ýmislegt gat breyst á toppnum.  Hjörvar hafði hvítt á Sigurbjörn meðan Björn stýrði svörtu mönnunum gegn Hrafni.  Þá tefldi Ingvar  með hvítu gegn Guðmundi Gíslasyni (2360).  Hjörvar hafði að miklu að keppa því hann gat jafnað met Inga R. Jóhannssonar frá árinu 1959 þegar Ingi vann titilinn þriðja árið í röð.  Sjálfsagt var Sigurbjörn ekki kjörandstæðingur Hjörvars því hann hefur haft ágætis tak á Hjörvari undanfarin misseri.

 

Báðir fengu þeir Hjörvar og Björn fljótlega betri stöðu í sínum viðureignum, þó sér í lagi Björn, sem bætti stöðu sína jafnt og þétt, og sigraði að lokum örugglega eftir nokkra slæma leiki Hrafns.  Sú skák kláraðist nokkuð snemma og þurfti Björn því að bíða og sjá hvernig skák Hjörvars og Sigurbjörns þróaðist.  Sem fyrr segir fékk Hjörvar töluvert rýmra tafl en tókst ekki að finna réttu leiðirnar í miðtaflinum, þar sem hann gat m.a. bætt stöðu sína enn frekar með því að skipta á hrók fyrir tvo riddara.  Eftir misráðin drottningarskipti Hjörvars snérist taflið Sigurbirni í vil sem vann síðan endataflið, peði yfir, örugglega í kjölfarið.

 

Það varð því ljóst að Björn var orðinn Skákmeistari Reykjavíkur 2011 með 8 vinninga, hæsta vinningafjölda síðan 2007 þegar Sigurbjörn sigraði, einnig með 8 vinninga.  Þetta er í annað sinn sem Björn ber titilinn en hann vann síðast árið 2003.  Björn og Hjörvar leiddu mótið allan tímann og sjálfsagt hefur Björn lagt grunninn að sigrinum í fimmtu umferð þegar hann bar sigurorð af Hjörvari.  Björn fór taplaus í gegnum mótið, vann sjö viðureignir og gerði tvö jafntefli.

 

Með sigrinum á Hjörvari skaust Sigurbjörn upp í annað sætið með 7,5 vinning og tapaði ekki skák, vann sex og gerði þrjú jafntefli.  Hjörvar varð þriðji með 7 vinninga og tapaði tveimur viðureignum, sem er harla óvenjulegt ef litið er til árangurs hans á íslenskum skákmótum að undanförnu.  Jafnir í 4.-5. sæti með 6,5 vinning urðu Gylfi Þórhallsson og Guðmundur.  Gylfi, sem vann Jón Úlfljótsson (1860) örugglega í lokaumferðinni, átti mjög gott mót og var við toppinn allan tímann.  Guðmundur byrjaði mótið hinsvegar skelfilega en kom sterkur til baka, fékk 4,5 vinning í síðustu fimm umferðunum og vann Ingvar í lokaumferðinni eftir að hafa verið með verra tafl framan af.  Það skal tekið fram að Guðmundi fannst ekkert tiltökumál að ferðast frá vestfjörðum fyrir hverja umferð til að geta tekið þátt í mótinu.  Alveg hreint til fyrirmyndar og hvetjandi fyrir aðra skákmeistara sem sáu sér ekki fært að vera með en koma án efa sterkir til leiks á næstu árum.

 

Átta keppendur koma næstir með 6 vinninga.  Þeirra á meðal er ein efnilegasta skákkona landsins, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (1982), sem tapaði aðeins tveimur skákum og græðir 29 Elo-stig fyrir árangurinn sem samsvarar hvorki meira né minna en 2144 stigum!  Hinn ungi og efnilegi, Guðmundur Kristinn Lee (1585), stóð sig sömuleiðis frábærlega, fékk 5,5  vinning og hafnaði í 14.-21. sæti.  Árangur hans samsvarar 2058 Elo-stigum og er hann stigakóngur mótsins með stigagróða upp á heil 50 stig!  Margir aðrir ungir skákmenn stóðu sig mjög vel og hækka umtalsvert á stigum.  Listi yfir mestu stigahækkanir fylgir hér að neðan ásamt verðlaunahöfum.

 

Verðlaunahafar:

1. sæti: Björn Þorfinnsson 8v
2. sæti: Sigurbjörn Björnsson 7,5v
3. sæti: Hjörvar Steinn Grétarsson 7v

Stigaverðlaun:

U2000 skákstigum: Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir 6v

U1800 skákstigum: Jón Úlfljótsson og Guðmundur Kristinn Lee 5,5v

U1600 skákstigum: Jón Trausti Harðarson 5v

Besti árangur stigalausra: Óskar Einarsson 5v

 

Mestu stigahækkanir:

Stigakóngur: Guðmundur Kristinn Lee 50 stig

Emil Sigurðarson 37 stig

Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir 29 stig

Páll Andrason 25 stig

Sigurbjörn Björnsson 24 stig

Tinna Kristín Finnbogadóttir 15 stig

Björn Þorfinnsson 15 stig

 

Jafntefliskóngur: Tómas Björnsson, 7 jafntefli

 

Óvæntustu úrslitin: Eiríkur K. Björnsson – Tómas Björnsson, jafntefli í 15 leikjum

 

Skákstjórn önnuðust Ólafur S. Ásgrímsson og Ríkharður Sveinsson.

  • Chess-Results
  • Skákirnar