Björgvin Víglundsson Öðlingameistari og Íslandsmeistari 50 ára og eldri



IMG_9236

Björgvin Víglundsson er vel að titlunum kominn.

Björgvin Víglundsson er Skákmeistari öðlinga 2017 sem og Íslandsmeistari skákmanna 50 ára eldri en Skákmóti öðlinga lauk síðastliðið föstudagskvöld í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni. Í spennandi lokaumferð sigraði Björgvin Þór Valtýsson og lauk leik með 6 vinninga af sjö mögulegum, jafnmarga vinninga og Fide-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson sem lagði Siguringa Sigurjónsson. Hlýtur Björgvin efsta sætið að loknum stigaútreikningi (tiebreaks). Þorvarður Fannar Ólafsson kom þriðji í mark með 5,5 vinning. Að þessu sinni var mótið aukinheldur Íslandsmót skákmanna 50 ára og eldri og varð Björgvin jafnframt efstur í þeim hópi og hlýtur því Íslandsmeistaratitilinn.

IMG_9240

Ingvar Þór Jóhannesson tók þátt í sínu fyrsta Öðlingamóti og varð efstur ásamt Björgvini.

Öðlingamótið hefur verið haldið sleitulaust síðan 1992 og var vel skipað í ár, hið fjölmennasta síðan 2011, en þátt tóku 36 keppendur. Ríflega fjórðungur keppenda hafði meira en 2000 Elo-stig og ríflega helmingur meira en 1900 Elo-stig. Úr varð hið skemmtilegasta mót þar sem úrslit réðust ekki fyrr en að lokinni síðustu umferð sem að þessu sinni fór fram á föstudagskvöldi vegna þéttleika í mótahaldi.

20170329_205703

Andrúmsloft Öðlingamótanna er skemmtilegt og mikil reynsla liggur í loftinu.

Við upphaf móts var ljóst að baráttan myndi standa á milli stigahæstu manna og spurning hvort einhver hefði roð við Fide-meistaranum Ingvari Þór (2377) sem var langstigahæstur keppenda. Stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, er illviðráðanleg þegar hún er í gírnum en hún var næststigahæst keppenda (2210). Þorvarður, sem er tvöfaldur Öðlingameistari, var þriðji í stigaröðinni (2188) og skammt undan var Björgvin (2185) sem hefur verið ötull við skákborðið undanfarin misseri. Svo fór að baráttan stóð að mestu á milli Björgvins og Ingvars, sem og Siguringa Sigurjónssonar sem hóf mótið af miklum krafti en varð að lúta í gras gegn þeim tveim fyrrnefndu í síðari hluta mótsins. Lenka náði sér ekki almennilega á flug í mótinu en Þorvarður var aldrei langt frá toppbaráttunni og fór taplaus í gegnum mótið líkt og Björgvin og Ingvar.

20170331_195019

Félagarnir Pétur Jóhannesson og Björgvin Kristbergsson láta sig sjaldan vanta á skákmót. Þeir háðu harða og afar spennandi orrustu í Öðlingamótinu.

Björgvin er sannarlega vel að báðum titlum kominn og óskum við honum til hamingju með glæsilegan árangur. Öll úrslit ásamt skákum mótsins má nálgast hér að neðan (skákirnar einnig á Chess-Results) en það var Daði Ómarsson sem sló inn skákirnar hratt og örugglega.

Hraðskákmót öðlinga fer fram miðvikudagskvöldið 12. apríl og hefst kl. 19.30. Að því loknu fer fram verðlaunaafhending fyrir bæði mótin.