Baráttan heldur áfram á Skákþinginu



Nokkuð var um óvænt úrslit í 2.umferð Skákþings Reykjavíkur sem fram fór síðastliðið miðvikudagskvöld. Bar þar hæst sigur hins efnilega TR-ings Arons Þórs Mai (1262) á stjórnarmanni Skáksambands Íslands, Óskari Long Einarssyni (1619). Sterkur sigur hjá Aroni sem er til alls líklegur við skákborðið um þessar mundir. Þá gerði Bjarni Sæmundsson (1895) jafntefli við annan stjórnarmann Skáksambandsins, skákdómarann geðþekka Omar Salama (2282). Þriðji stjórnarmaður Skáksambandsins lenti einnig í kröppum dansi því akademíuforinginn Stefán Bergsson (2085) varð að gera sér að góðu jafntefli með hvítu mönnunum gegn John Ontiveros (1810). Gárungarnir velta því nú fyrir sér hvort það hafi mögulega veikjandi áhrif á skákstyrkleika að taka sæti í stjórn Skáksambandsins. Ekki verður um það fullyrt hér.

Í þriðju umferð sem tefld verður á sunnudag klukkan 14 eru nokkrar athygliverðar rimmur. Á efsta borði glímir Þorvarður Fannar Ólafsson (2245) við stórmeistarann Stefán Kristjánsson (2492), á öðru borði stýrir fyrrum Íslandsmeistarinn Jón Viktor Gunnarsson (2433) hvítu mönnunum gegn Rimaskólaprinsinum Oliver Aroni Jóhannessyni (2170) og á þriðja borði mætast alþjóðlegu meistararnir og samfélagsrýnarnir Sævar Bjarnason (2114) og Björn Þorfinnsson (2373) í fyrstu skák mótsins á milli tveggja titilhafa.

Nú þegar titilhafarnir eru farnir að mætast innbyrðis þá harðna átökin og línur taka að skýrast í toppbaráttunni. Nær einhver að stöðva stórmeistarann? Hver hækkar mest á stigum? Hver mun koma mest á óvart? Hvor mun fórna fleiri mönnum í mótinu, Björn Þorfinnsson eða Stefán Bergsson? Gerir Sævar Bjarnason atlögu að sínum fyrsta sigri á Skákþinginu í 21 ár? Munu stjórnarmenn Skáksambandsins rétta sinn hlut? Ekki missa af fjörinu í húsakynnum TR að Faxafeni 12. Allir velkomnir!

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Myndir
  • Skákþing Reykjavíkur 2014
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur