Arnar Gunnarsson Íslandsmeistari í hraðskák



Alþjóðlegi meistarinn, Arnar E. Gunnarsson (2443) úr T.R. sýndi það enn og aftur að hann er einfaldlega langbestur í spilinu þegar kemur að hraðskák enhann varð á dögunum Íslandsmeistari í greininni.  Mótið fór fram í Bolungarvík að loknum landsliðsflokki.

Arnar fékk 10,5 vinning af 13 en í öðru sæti með 10 vinninga varð stórmeistarinn, Jón L. Árnason og Andri Áss Grétarsson varð þriðji með 9 vinninga.

Arnar hefur verið dyggur liðsmaður T.R. frá unga aldri og einn af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar.  Hann er hluti af hinni frægu Æfingaskóla skákkynslóð og sýndi snemma góða takta við skákborðið.  Það er því mikil synd að hann skuli hafa teflt jafnlítið af kappskákum undanfarin misseri eins og raun ber vitni og vonandi að hann fari að sjást meira við skákborðið í náinni framtíð.

Arnar er einnig mikill áhugamaður um knattspyrnu og veit oft sínu viti þegar hún er annarsvegar.  Uppáhaldsleikmaður hans er Cristiano Ronaldo sem á dögunum gekk til liðs við stórlið Real Madrid frá ensku stórmeisturunum, Manchester United, og mun hann vafalaust fylgjast vel með snillingnum í komandi Spánarsparki.

Stjórn Taflfélags Reykjavíkur óskar Arnari innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn.

Lokastöðu mótsins má nálgast á Chess-Results.