Arnar Atskákmeistari Íslands



Alþjóðlegi meistarinn Arnar Erwin Gunnarsson varð í gær Atskákmeistari Íslands í fjórða sinn eftir sigur á Fide meistaranum Davíð Kjartanssyni í úrslitaeinvígi.  Arnar hefur hlotið titilinn oftast Íslendinga ásamt stórmeistaranum Helga Ólafssyni en Arnar hefur lengi verið meðal allra sterkustu skákmanna þjóðarinnar í hrað- og atskákum en hann hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari í hraðskák.

 

Tefldar voru tvær atskákir þar sem hvor keppandi hafði 25 mínútna umhugsunartíma.  Arnar hafði sigur með svörtu mönnunum í fyrri viðureigninni eftir að Davíð náði ekki að fylgja eftir hvassri byrjanataflmennsku í Evans bragði.  Davíð jafnaði síðan metin með svörtu mönnunum í seinni viðureigninni með mikilli baráttu eftir jafnteflislega byrjun.  Þá var tefld úrslitaskák þar sem Arnar hafði hvítt og sex mínútna umhugsunartíma meðan Davíð stýrði svörtu mönnunum og hafði fimm mínútna umhugsunartíma.  Þesskonar fyrirkomulag kallast Armageddon og nægir svörtum jafntefli til að teljast sigurvegari – hvítur þarf því að vinna.  Með þessu er tryggt að aðeins eina viðureign þarf til að útkljá einvígið.  Úrslitaviðureignin náði aldrei neinni spennu þar sem Arnar fékk snemma unnið tafl eftir slaka taflmennsku Davíðs í byrjuninni og innbyrti öruggan sigur.

 

Einvígið fór fram í sjónvarpssal og var sýnt beint á RÚV.  Skákstjórn var í höndum Gunnars Björnssonar og skákskýringar önnuðust Ingvar Þór Jóhannesson og Stefán Bergsson sem stóðu sig með prýði enda kúnst að gera skák „sjónvarpsvæna“.  Öll umgjörð var hin glæsilegasta og RÚV til sóma.  Upptöku af einvíginu má nálgast hér.