Alexander Oliver efstur í U-2000 mótinu



Alexander Oliver Mai stýrði svörtu mönnunum til sigurs gegn Kristjáni Gerissyni og er efstur í mótinu.

Alexander Oliver Mai stýrði svörtu mönnunum til sigurs gegn Kristjáni Gerissyni og er efstur í mótinu.

Alexander Oliver Mai (1875) er einn efstur með fullt hús vinninga þegar þremur umferðum er lokið í U-2000 móti Taflfélags Reykjavíkur. Alexander, sem hefur verið á feykilegri siglingu að undanförnu, hafði betur í þriðju umferðinni gegn Kristjáni Geirssyni (1556) þar sem hann saumaði jafnt og þétt að þeim síðarnefnda með svörtu mönnunum eftir að hafa stillt upp hinni sívinsælu Sikileyjarvörn.

Mikael Bjarki Heiðarsson, sem hér stjórnar hvíta hernum, er aðeins átta ára og á framtíðina fyrir sér.

Mikael Bjarki Heiðarsson, sem hér stjórnar hvíta hernum, er aðeins átta ára og á framtíðina fyrir sér.

Sjö keppendur koma næstir með 2,5 vinning en jafnteflum fjölgaði snarlega í gærkveld enda stigamunur keppenda í milli orðinn minni en í upphafi móts. Á efsta borði gerðu Stephan Briem (1895) og Jóhann Arnar Finnsson (1732) jafntefli í tíðindalítilli viðureign og þá urðu sömu úrslit á þriðja borði hjá Agnari Darra Lárussyni (1750) og Ólafi Guðmarssyni (1724) í tvísýnni baráttu. Með drottningu og hrók gegn tveimur hrókum og biskupi Agnars reyndi Ólafur hvað hann gat til að knýja fram sigur en menn Agnars stóðu vel og voru vopnin að lokum slíðruð þegar hvor keppandi hafði látið hrók af hendi. Lítið var um óvænt úrslit en þó ber að geta góðs sigurs Björgvins Kristbergssonar (1054) gegn Ármanni Péturssyni (1270) þar sem Björgvin stýrði svarta hernum fram til sóknar eins og honum einum er lagið.

Hinn margreyndi Björgvin Kristbergsson er refur við skákborðið og vann góðan sigur.

Hinn margreyndi Björgvin Kristbergsson er refur við skákborðið og vann góðan sigur.

Fjórða umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst, eins og alþjóð veit, kl. 19.30. Þá fer að hitna verulega í kolunum en á efsta borði verður svakaleg viðureign á milli Alexanders og Stephans. U-2000 meistarinn, Haraldur Baldursson (1935), kemur ferskur inn eftir hvíld í síðustu umferð og stýrir hvítu gegn Agnari Darra á öðru borði og þá mætast Jóhann Arnar og Páll Andrason (1805) á því þriðja. Úrslit, stöðu og skákir mótsins má að vanda finna á Chess-Results, en það er Daði Ómarsson sem slær inn skákirnar hratt og örugglega.