Alexander og Páll sigurvegarar U-2000 mótsins



Sigurvegari U-2000 mótsins 2017, Alexander Oliver Mai. Verður hann gjaldgengur í mótið að ári liðnu?

Sigurvegari U-2000 mótsins 2017, Alexander Oliver Mai. Verður hann gjaldgengur í mótið að ári liðnu?

U-2000 móti Taflfélags Reykjavíkur lauk síðastliðið miðvikudagskvöld þegar spennandi lokaumferð fór fram í húsakynnum félagsins að Faxafeni. Lokaröð keppenda lá fyrir rétt fyrir miðnætti en jafnir í 1.-2. sæti með 6 vinninga voru Alexander Oliver Mai (1875) og Páll Andrason (1805) þar sem sá fyrrnefndi var eilítið hærri á mótsstigum (tiebreaks) og hlýtur því fyrsta sætið. Þriðji í mark með 5,5 vinning var svo sigurvegari síðustu tveggja ára, Haraldur Baldursson (1935).

Páll Andrason snéri taflinu sér í vil gegn Óskari Víkingi Davíðssyni og tryggði sér 1.-2. sætið.

Páll Andrason snéri taflinu sér í vil gegn Óskari Víkingi Davíðssyni og tryggði sér 1.-2. sætið.

Fyrir sjöundu og síðustu umferð voru Alexander og Páll efstir og jafnir með 5 vinninga ásamt Jóni Eggerti Hallssyni (1648). Því miður fór það svo að Jón Eggert, sem átti að stýra svörtu mönnunum gegn Alexander, gat ekki teflt skákina og varð því að gefa viðureignina. Þar með fékk Alexander frían vinning og var kominn í góða stöðu á toppnum með 6 vinninga og var Páll því sá eini sem gat náð honum að vinningum, en til þess þurfti hann að leggja Óskar Víking Davíðsson (1777) sem var engan veginn sjálfgefið. Úr varð hörkuviðureign þar sem Óskar var skiptamun yfir á tímabili og líklega með unna stöðu. Honum fataðist hinsvegar flugið í endataflinu sem varð til þess að taflið snérist Páli í vil sem innbyrti að lokum sigurinn síðla kvölds. Þar með náði hann Alexander að vinningum, en þar sem andstæðingar Alexanders höfðu hlotið eilítið fleiri vinninga samtals varð Páll að láta sér nægja annað sætið. Flott mót hjá þeim báðum og góð stigahækkun í húsi. Nokkuð margir keppendur höfðu möguleika á að næla sér í bronsið en Haraldur tryggði sér það með öruggum sigri á Jóhanni Arnari Finnssyni (1732).

Haraldur Baldursson nældi í bronsið.

Haraldur Baldursson nældi í bronsið.

Skemmtilegu móti er þar með lokið og það er klárt mál að endurvakning U-2000 hefur verið vel heppnuð viðbót í mótaflóruna og ljóst að framhald verður á mótinu að ári liðnu. Töluvert var um góðar stigahækkanir hjá keppendum en þar bar höfuð og herðar yfir aðra, Blikapilturinn knái, Gunnar Erik Guðmundsson (1361) sem landaði hvorki meira né minna en 86 Elo-stigum og hafnaði í 9. sæti með 4,5 vinning. Af öðrum sem hækkuðu töluvert má nefna Jón Eggert (47), Kristján Geirsson (45), Alexander Oliver (37), Birgir Loga Steinþórsson (34) og Benedikt Þórisson (32).

Fremst í mynd má sjá Stephan Briem sem lagði Kristján Geirsson.

Fremst í mynd má sjá Stephan Briem sem lagði Kristján Geirsson með hvítu mönnunum.

Í upphafspistli mótsins er að finna ýmsar hugleiðingar um mótið og fleira því tengdu. Öll úrslit og meira til, ásamt öllum skákum mótsins má finna á Chess-Results. Daði Ómarsson sá um innslátt skáka. Keppendum er þökkuð þátttakan – sjáumst að ári!