Æskan og Ellin – Skák er fyrir allaSíðastliðinn laugardag fór fram í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur hið mikla kynslóðabrúarskákmót, Æskan og Ellin, sem var nú haldið í ellefta sinn. Mótið er samstarfsverkefni Riddarans, skákklúbbs eldri borgara, Taflfélags Reykjavíkur og OLÍS sem jafnframt er stærsti bakhjarl mótsins. Að auki veita mótahaldinu góðan stuðning POINT á Íslandi, Urður bókaútgáfa Jóns Þ. Þórs og Litla Kaffistofan í forsvari Stefáns Þormars.

Varðlaunasjóður var glæsilegur; 100.000 kr peningaverðlaun, flugmiðar til Evrópu með Icelandair, eldsneytisúttektir, verðlaunabikarar- og peningar, skákbækur og veitingaúttektir.

Mótinu er ætlað að brúa kynslóðabil skákmanna en það er opið skákmönnum 15 ára og yngri sem og 60 ára og eldri en fyrirkomulagið skapar sérlega skemmtilega stemningu þar sem kátínan skín úr andlitum ungra sem roskna. Skák er svo sannarlega fyrir alla og á sér engin aldursmörk.

Að þessu sinni mættu 81 galvaskir keppendur til leiks í Skákhöllina og því var þétt setið þegar skákklukkurnar hófu slátt sinn eftir sköruleg ræðuhöld Einars S. Einarssonar og hins magnaða Guðna Ágústssonar sem sló reyndar algjörlega í gegn á sinn einstæða máta. Að þrumuræðunni lokinni lék Guðni fyrsta leiknum ásamt hinni sex ára Iðunni Helgadóttur og aldurskóngi mótsins, hinum 87 ára Sverri Gunnarssyni, í skák Braga Halldórssonar og Ottós Bjarka Arnar.

Loftið í Skákhöllinni var rafmagnað þegar keppendur hófu að úða út leikjum og berja á klukkunum og ekki var óalgeng sjón að sjá þá rosknari þurfa að hafa sig alla við gegn hinum yngri og oftar en ekki risu börnin sigri hrósandi upp frá borðum og þá var sko gaman og gleðin skein úr augum.

Það er þó þannig að oft mega hinir nýrri sín lítils gegn mikilli reynslu þeirra sem lengur hafa fetað lífsins spor og um miðbikinn einokuðu höfðingjar mótsins nánast toppbaráttuna. Það var aðeins hinn ungi og eitilharði Vignir Vatnar Stefánsson sem veitti þeim keppni og það verðuga. Kappar á borð við alþjóðlega meistarann Sævar Bjarnason, Gylfa Þór Þórhallsson, Jóhann Örn Sigurjónsson, Braga Halldórsson og Sigurð Herlufsen máttu hafa sig alla við í baráttunni við hinn unga snilling sem knésetti hvern skákmanninn á fætur öðrum.

Ekki voru blóð sviti og tár alfarið bundin við baráttu hinna sterkustu því allstaðar var hart barist um hin fjölmörgu aukaverðalun sem í boði voru. Ungir keppendur náðu eftirtektarverðum árangri og sem lítið brot má þar nefna Sóleyju Lind Pálsdóttur, Róbert Luu, Aron Þór Mai, Óskar Víking Davíðsson, Nansý Davíðsdóttur og Felix Steinþórsson. Margir aðrir og enn yngri keppendur, sumir hverjir enn að stíga sína fyrstu dansa á reitunum svarthvítu, voru skákgyðjunni til mikils sóma.

Spennan var mikil og réðust úrslit ekki fyrr en í lokaumferðinni þegar Bragi lagði Vigni Vatnar eftir mikla dramatík innan borðs sem utan en aðeins Braga og alþjóðlega meistaranum Sævari tókst að sigra ljóshærða víkinginn. Með sigrinum tryggði Bragi sér efsta sætið annað árið í röð og í þriðja sinn á fjórum árum. Bragi hlaut 7,5 vinning úr skákunum níu en að þessu sinni var lítill afgangur af sigrinum því Guðfinnur R. Kjartansson var á miklu flugi í seinni hlutanum og kom í mark jafn Braga að vinningum. Guðfinnur mátti þó gera sér að góðu gott annað sæti eftir stigaútreikning en næstir með 7 vinninga komu Sævar, Jóhann Örn og Vignir Vatnar sem jafnframt varð efstur barna tólf ára og yngri.Aðstandendur mótsins vilja koma á framfæri miklum þökkum til bakhjarla þess og ekki síst til allra þeirra frábæru keppenda sem lögðu leið sína í Faxafenið. Birna Halldórsóttir á líka heiður skilinn fyrir að standa frábæra vakt í hinu margrómaða Birnu-Kaffi. Við vonumst til að sjá ykkur öll að ári!Hér að neðan fylgir yfirlit yfir efstu keppendur í hverjum flokki en heildarúrslit má sjá hér. Þá má benda á fjöldan allan af myndum á fésbókarsíðu Taflfélags Reykjavíkur.Heildarúrslit·         1.-2. Bragi Halldórsson, Guðfinnur R. Kjartansson 7,5v

·         3.-5. Sævar Bjarnason, Jóhann Örn Sigurjónsson, Vignir Vatnar Stefánsson 7v

60 ára og eldri·         1.-2. Bragi Halldórsson, Guðfinnur R. Kjartansson 7,5v·         3. Sævar Bjarnason 7v

70 ára og eldri

·         1. Jóhann Örn Sigurjónsson 7v·         2.-4. Sigurður Herlufsen, Þór Már Valtýsson, Ásgeir Sigurðsson 6v

80 ára og eldri

·         1. Björn Víkingur Þórðarson 6v·         2.-3. Páll G. Jónsson, Magnús V. Pétursson 5v

15 ára og yngri

·         1.-2. Felix Steinþórsson, Sóley Lind Pálsdóttir 6v·         3. Aron Þór Mai 5,5v

12 ára og yngri

·         1. Vignir Vatnar Stefánsson 7v·         2. Nansý Davíðsdóttir 6,5v·         3.-4. Arnar Milutin Heiðarsson, Mikael Maron Torfason 5v

9 ára og yngri

·         1. Óskar Víkingur Davíðsson 6v·         2. Róbert Luu 5,5v·         3. Freyr Grímsson 5v