Æskan og ellin fer fram á morgun – tæplega 70 skráðir



Skákmótið  “Æskan og Ellin”, þar sem kynslóðirnar mætast, verður haldið í tíunda sinn laugardaginn 26.  október nk.  í Skákhöllinni í Faxafeni.  Nú þegar eru á sjöunda tug keppenda skráðir til leiks og því fer hver að verða síðastur að skrá sig!

 

RIDDARINN, skákklúbbur eldri borgara, Taflfélag Reykjavíkur,  og OLÍS – Olíuverslun Íslands hafa gert með sér  3ja ára stuðnings- og samstarfssamning um framkvæmd mótsins, til að auka veg þess og tryggja það í sessi.

Undanfarin 9 ár hefur mótið verið haldið að Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju þar sem Riddarinn hefur aðsetur.  Með því að ganga til samstarfs við TR, elsta og öflugasta taflfélag landsins og með myndarlegri aðkomu OLÍS að mótinu er þess að vænta að þátttaka ungra og aldinna í því aukist enn til hags fyrir alla skákunnendur  og uppvaxandi skákæsku alveg sérstaklega.

 

Fyrri mót af þessu tagi, þar sem kynslóðirnar mætast, hafa vakið verðskuldaða athygli, verið vel heppnuð  og til mikillar ánægju fyrir alla þátttakendur,  jafnt yngri sem eldri.    Á síðasta ári var yfir 80 ára aldursmunur milli yngsta og elsta keppandans.  Sigurvegari mótsins í fyrra var Oliver Aron Jóhannesson, 14 ára, sem vann mótið glæsilega eftir hafa lagt þrjá fyrrum sigurvegara þess úr öldungaflokki af velli.

Verðlaunasjóður mótsins er kr. 100.000 auk þess sem veitt verða aldurflokkaverðlaun í 3 flokkum ungmenna og öldunga. Gjafabréf frá Icelandair fyrir flugmiðum á mót erlendis fyrir sigurvegara í barna og unglingaflokkum, 9 ára og yngri; 12-19 ára og 13-15 ára.  Úttektarkort kr. 10.000 hjá OLÍS fyrir efstu menn í 3 öldungaflokkum, 60-69 ára; 70-79 ára og 80 ára og eldri.   Bókaverðlaun verða einnig veitt í öllum flokkum auk þess sem efnt verður til veglegs vinningahappdrættis  í mótslok að lokinni verðlaunaafhendingu.  Sportvörubúðin JÓI ÚTHERJI gefur alla verðlaunagripi/peninga.

 

Þátttaka í mótinu er ókeypis og miðast við börn og ungmenni á grunnskólaaldri, 15 ára og yngri og roskna skákmenn, 60 ára og eldri. Mótið hefst kl. 13 og tefldar verða 9 umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma á skákina. 

 

Mótsnefnd skipa þeir Björn Jónsson, formaður TR, Einar S. Einarsson, formaður Riddarans og Páll Sigurðsson, skákstjóri.  Hægt verður að skrá sig til þátttöku  með nafni,  kennitölu og félagi  á  www.skak.is  vikuna fyrir mót.  Hámarkfjöldi þátttakenda miðast við 100. Því er æskilegt að skrá sig fyrirfram eða mæta tímanlega á mótsstað.