Æskan og ellin: Bragi sigurvegari í glæsilegu móti



Mikið var um dýrðir í Skákhöll Taflfélags Reykjavíkur í gær þegar hið vinsæla skákmót Æskan og ellin – Olísmótið fór fram.   Þetta er í fyrsta sinn sem Riddarinn taflfélag eldri borgara og Taflfélag Reykjavíkur halda mótið saman og með dyggri aðstoð Taflfélags Garðabæjar gekk mótahaldið vonum framar.  Glæsileg verðlaun voru veitt í mótslok í fjölmörgum flokkum og voru þau í boði Olís og skákfélaganna en Jói útherji gaf verðlaunagripi.

Eftir ræðu hins kraftmikla öldungs Einars S. Einarssonar setti formaður Taflfélags Reykjavíkur Björn Jónsson mótið og Magnús V. Pétursson lék fyrsta leiknum í skák Braga Halldórssonar og Gabriels Bjarnþórssonar.

Alls mættu 78 keppendur til leiks sem verður að teljast mjög góð þátttaka. Hart var barist en þó af miklum drengskap.  Nokkur tár sáust í umferðunum níu, helst hjá yngstu keppendunum, en þó sáust miklu fleiri bros og hlátursköll voru áberandi enda er það fyrst og fremst gleðin sem ræður för á þessu árlega móti.

Að lokum var það Bragi Halldórsson sem stóð uppi sem sigurvegari, eftir að hafa tekið forystu snemma í mótinu. Hlaut hann 8 vinninga af níu mögulegum sem er stórgóður árangur.  Sigurvegari síðasta árs Oliver Aron Jóhannesson fimmtán ára, kom annar í mark hálfum vinningi á eftir.  Hinn kornungi og geysiefnilegi Vignir Vatnar Stefánsson varð svo þriðji með sjö vinninga.  Hann mætti einmitt Braga í síðustu umferðinni og hefði með sigri getað skotist í fyrsta sætið.  Það gekk þó ekki eftir og sættust þessir glæsilegu fulltrúar æskunnar og ellinnar á skiptan hlut eftir þónokkrar sviptingar.

Sem fyrr segir var mótahald sérlega glæsilegt og ljóst að mót sem þetta er afar vinsælt.  Keppendum sem og gestum og gangandi var boðið upp á ljúffengar veitingar í Birnu-Kaffi þar sem Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir og Áslaug Kristinsdóttir stóðu vaktina með glæsibrag í fjarveru Birnu Halldórsdóttur sem hélt upp á sjötugsafmælið sitt en Birna er fyrir löngu orðin órjúfanlegur partur af starfsemi Taflfélags Reykjavíkur.

Mótshaldarar vilja koma á framfæri þökkum til keppenda fyrir hinar frábæru viðtökur sem mótið hefur fengið og þá fá styrktaraðilar sérstakar þakkir fyrir sína aðkomu sem gerir mótið enn veglegra en ella.  Hér má sjá fjölda glæsilegra mynda sem Áslaug tók.

Úrslit

  • 1. Bragi Halldórsson 8v
  • 2. Oliver Aron Jóhannesson 7,5
  • 3.-5. Vignir Vatnar Stefánsson 7
  • 3.-5. Þór Már Valtýsson 7
  • 3.-5. Gunnar Kr. Gunnarsson 7

Flokkaverðlaun

80 ára

  • 1. Gunnar Kr. Gunnarsson 7v
  • 2.-3. Páll G. Jónsson 6
  • 2.-3. Magnús V. Pétursson 6

70 ára

  • 1. Þór Már Valtýsson 7v
  • 2. Sigurður Herlufsen 6,5
  • 3. Gísli Gunnlaugsson 6

60 ára

  • 1. Bragi Halldórsson 8v
  • 2. Júlíus L. Friðjónsson 6,5
  • 3. Guðfinnur Kjartansson 6

8.-10. bekkur

  • 1. Oliver Aron Jóhannesson 7,5v
  • 2. Gauti Páll Jónsson 6,5
  • 3. Jóhann Arnar Finnsson 5,5

5.-7. bekkur

  • 1. Vignir Vatnar Stefánsson 7v
  • 2.-3. Nansý Davíðsdóttir 5,5
  • 2.-3. Mykhaylo Kravchuk 5,5

1.-4. bekkur

  • 1. Óskar Víkingur Davíðsson 5,5v
  • 2. Stefán Orri Davíðsson 5
  • 3. Joshua Davíðsson 4

Heildarúrslit