Actavis sigraði í Skákkeppni vinnustaða!



Það hefur verið mikið um að vera hjá Taflfélagi Reykjavíkur undanfarið eins og ætíð.  Á mánudag fór fram fjölmennt Reykjavíkurmót grunnskólasveita í skákhöllinni og í gærkvöld var röðin komin að hinni skemmtilegu Skákkeppni vinnustaða.  Ellefu sveitir voru mættar til leiks og margar þeirra afar sterkar.  Actavis sem hafði titil að verja mættu gráir fyrir járnum með hvorki meira né minna en fjórar sveitir.  A sveit fyrirtækisins var skipuð sigurvegurunum frá því í fyrra, FIDE meisturunum Sigurbirni Björnssyni , Sigurði Daða Sigfússyni og Davíð Ólafssyni. 

Skákakademía Reykjavíkur sem margsinnis hefur unnið keppnina tefldi fram Birni Ívari Karlssyni á fyrsta borði, framkvæmdastjóranum Stefáni Steingrím Bergssyni á öðru borði og Siguringa Sigurjónssyni á þriðja borði. 

ION Luxury Adventure Hotel tók nú þátt í fyrsta sinn og með fyrnasterka sveit. Hótelstjórinn og FIDE meistarinn Davíð Kjartansson fór að sjálfsögðu fyrir sínum mönnum, á öðru borði var íþróttamaður Fjölnis 2013 hinn efnilegi Oliver Aron Jóhannesson og á því þriðja tefldu Patrekur Maron Magnússon og Birkir Karl Sigurðsson til skiptis.

Landspítalinn tefldi fram öflugri sveit sem kraftajötuninn og Víkingurinn Gunnar Freyr Rúnarsson fór fyrir og leiddi sú sveit mótið framan af.  Myllan sem margsinnis hefur tekið þátt tefldi fram þéttri sveit, þeirri sömu og vann bronsið í fyrra með þá Þorvarð Fannar Ólafsson, Einar Valdimarsson og John Ontiveros innanborðs.  Icelandair tók nú þátt með hinn öfluga FIDE meistara úr Áss skákfjölskyldunni Andra Áss Grétarsson  á fyrsta borði.  Eiríkur Kolbeinn Björnsson fór fyrir sveit Verzlunarskóla Íslands sem nú tók þátt aftur eftir eins árs hlé en skólinn varð í 6. sæti árið 2013.  Betware tók nú þátt í fyrsta sinn og veðjaði á að óþekkt en þegar til kastanna kom nokkuð sterk sveit þeirra gæti gert fastagestum annarra sveita skráveifu. B,  C og D sveitir Actavis voru skipaðar skemmtilegum skákmönnum sem kunnu ýmislegt fyrir sér þótt þeir hafi ekki allir sést reglulega á skákmótum. 

Þessi fjölbreitta flóra sterkra meistara og minni spámanna setti skemmtilegan svip á keppnina og nokkur óvænt úrslit litu dagsins ljós.

Landspítalinn byrjaði keppnina mjög vel, vann tvær fyrstu viðureignir sínar 3-0, vann mikilvægan 2-1 sigur í þriðju umferð gegn Ion Luxury Adventure Hotel og leiddi að henni lokið keppnina.  A sveit Actavis var þó skammt undan og þegar þessar sveitir mættust í fjórðu umferð steinlá Landspítalinn 0-3.  Skákirnar voru þó mun jafnari en úrslitin gefa til kynna.

Actavis tók því forystuna og lét hana aldrei af hendi .  Sveitin fékk 8 vinninga af 9 mögulegum í þremur seinustu umferðunum og sigraði örugglega með 18.5 vinninga.  Skákakademía Reykjavíkur sem fór frekar rólega af stað tók  annað sætið „frá hlið“ með því að leggja Verzlunarskólann 3-0 í lokaumferðinni og skjótast þar með upp fyrir Landspítalann á stigum.  Báðar þessar sveitir luku leik með 14.5 vinninga.  ION Luxury Adventure Hotel sem mætti Myllunni í seinustu umferði og sættist á skiptan hlut 1.5-1.5 endaði í fjórða sæti með 13.5 vinninga líkt og Icelandair en ofar á stigum.

Heildarúrslit:

Taflfélag Reykjavíkur vill þakka þeim vinnustöðum sem tóku þátt og öllum þeim fjölda skákmanna sem kepptu fyrir hönd þeirra.  Sjáumst að ári!

 

Skákveislan heldur svo áfram á morgun en þá hefst þriðja mótið í Bikarsyrpu Taflfélagsins sem  stendur yfir helgina.  Þar gefst yngstu kynslóðinni okkar gullið tækifæri til að keppa sín á milli á alvöru kappskákmóti sem reiknað er bæði til íslenskra og alþjóðlegra skákstiga.  Verið velkomin!