Á fimmta tug skákkrakka á páskaskákæfingum TR!



Á fimmta tug skákkrakka tóku þátt í páskaskákæfingum TR 23. mars bæði á stelpu/kvenna skákæfingunni svo og á laugardagsæfingunni. Með fáum undantekningum voru þetta allt krakkar sem eru félagsmenn í Taflfélagi Reykjavíkur, en ásókn í félagið hefur aukist mikið í vetur. Krakkarnir sem sækja skákæfingarnar í TR koma úr öllum hverfum borgarinnar og er skákþjálfunin og allt námsefni þeim að kostnaðarlausu.

 

Í janúar sl. var auglýst nýtt fyrirkomulag á skákæfingum TR og hefur það mælst mjög vel fyrir.

Bæði hafa krakkarnir og foreldrarnir látið í ljósi mikla ánægju með fyrirkomulagið og hið frábæra námsefni sem Björn Jónsson hefur tekið saman og sett snilldarlega í góðan búning. Námsefnið er sýnt á skjávarpa á æfingunum og svo afhent krökkunum í litríkum og skilmerkilegum skákheftum. Eins og alltaf helst skákþjálfun, skákkennsla og taflmennska í hendur á skákæfingum TR. Við sem stöndum að félaginu mælum árangur æfinganna ekki síður í ástundun og ánægju krakkanna – og þar erum við svo sannarlega í góðum málum!

 

Það var fjölmennt og mjög góðmennt á laugardagsæfingunni kl. 14. Nokkrir strákar úr afrekshópnum sem eru yngri en 13 ára tóku einnig þátt og því fengu þau sem styttra eru komin að reyna sig við reyndari skákmenn þótt ungir séu! Meðal þátttakenda var til að mynda Vignir Vatnar Stefánsson sem hefur halað inn titlum og verðlaunum í vetur þó hann sé aðeins 10 ára gamall. Hann er t.d. Unglingameistari TR, Unglingameistari Reykjavíkur, Íslandsmeistari barna og Norðurlandameistari barna. Úr afrekshópnum voru líka Guðmundur Agnar Bragason, sem varð í 3. sæti með liði Álfhólsskóla á Íslandsmóti grunnskólasveita um daginn og Mykhaylo Kravchuk sem varð í þriðja sæti á Íslandsmóti barna í janúar. Einnig voru tvíburabræðurnir Bárður Örn og Björn Hólm Birkissynir, en þeir sækja skákæfingar hjá afrekshópnum og skákæfingarnar á laugardögum jöfnum höndum.

 

Eftir fyrri hluta æfingarinnar þar sem tefldar voru 4 umferðir var boðið upp á Nóa/Síríus lófapáskaegg og djús í hressingu og síðan var páskaeggjahappdrætti. Dregið var um þrjú Nóa/Síríus páskaegg og þau sem höfðu heppnina með sér í dag voru: Guðjón Ármann Jónsson, Sana Salah og Tindri Freyr Möller sem mætti á sína fyrstu skákæfingu í dag! Eftir páskahressinguna var svo félagsæfing TR þar sem Matthías skákþjálfari tók m.a. fyrir skákritun.

 

Barnastarfið í Taflfélagi Reykjavíkur er í mjög góðum farvegi og einnig hefur verið gerður mjög góður rómur af skákæfingunum hjá afrekshópnum, sem æfir tvisvar í viku undir handleiðslu Daða Ómarssonar og Torfa Leóssonar.

 

Stelpu/kvennahópurinn fer vaxandi og nú þegar er kominn harður kjarni sem mættir reglulega. Skákþjálfunin hjá stelpunum er með svipuðu sniði og á laugardagsæfingunum. Það eru skákstúderingar í fyrri hlutanum og teflt í seinni hlutanum. Á páskaæfingunni sl. laugardag voru lófapáskaegg frá Nóa/Síríus í boði í hressingunni og síðan var páskaeggjahappdrætti. Þrjár heppnar stelpur fengu Nóa/Síríus páskaegg, þær Bríet Birna Guðmundsdóttir, Karitas Ólöf Ísfeld Hafsteinsdóttir og Rakel Róbertsdóttir.

 

Pistill og myndir Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.