laugardagur 30. maí 05 2015
Póstlistaskráning
Póstlistaskráning
Skráđu netfangiđ ţitt og fáđu tilkynningar sendar í tölvupósti
Nafn
Afskrá
Dagatal
Maí - 2015
S M Ţ M F F L
26 27 28 29 30 1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31 1 2 3 4 5 6
<
>

Taflfélag Reykjavíkur er elsta, virtasta og eitt af öflugustu skákfélögum landsins. Félagið er margfaldur Íslandsmeistari skákfélaga. Aðsetur félagsins er að Faxafeni 12.


Þar er skák stunduð af miklum móð, skákmót haldin, æfingar fyrir unglinga og margt, margt fleira.

Öflugt barna- og unglingastarf.  Ókeypis æfingar alla laugardaga yfir vetrartímann. 

Vefsíða Taflfélags Reykjavíkur er keyrð á vefumsjónarkerfi Allra Átta ehf.

 

 

 

 

 

Taffifjelaz Reykjavíkur

 

Reykjavíkurblöðin greindu venjulega frá skipakomum og hvaða helstu farþegar hefðu verið þar um borð, ekki síst þegar erlendir menn áttu í hlut. Þjóðólfur greindi frá komu Napiers í fréttadálki 20. september 1902, en í sama blaði birtist augýsing Péturs Zóphóníassonar:
 
 

 

En hvað var William Ewart Napier að gera á Íslandi? Jú, það mál á sér nokkra forsögu.

 

Napier og Ísland

 
Málavextir voru þeir, að við stofnun Taflfélags Reykjavíkur haustið 1900 sendi velgjörðarmaður íslenskrar skáklistar, Willard Fiske, góðar gjafir til Taflfélagsins, þar á meðal tvenn verðlaun, annars vegar fyrir besta skákdæmið og hins vegar fyrir bestu skákina í sérstöku verðlaunamóti. Hvorttveggja yrði birt í þýska skákritinu Deutsche Scachzeitung, sem var þá eitt virtasta skáktímarit heims. Þetta hefur verið rakið hér áður og óþarfi að endurtaka.

 
Sigurskákin var tefld í árslok 1900 á milli Sigurðar Thoroddsens verkfræðings og Péturs Zóphóníassonar, og birtist hún í þýska skáktímaritinu, vísast ásamt fréttum af Taflfélagi Reykjavíkur og ástæðum þess, að hið virta tímarit væri að birta skák óþekktra skákmanna og þar að auki ekki alltof vel teflda af hálfu annars aðilans. En úr því Fiske átti þar jafn greiðan aðgang og raun bar vitni (en hann dvaldi á í Berlín), hefur blaðið vísast greint frá stofnun Taflfélagsins nokkru fyrr, eins og ráða má af heimildum.
 
 
En hið þýska skáktímarit var útbreitt víða um heim og mikið lesið meðal skákmanna hvarvetna, m.a. í Bretlandi, en þar var greint frá stofnun Taflfélags Reykjavíkur í British Chess Magazine. Napier, sem þá var ritstjóri skákdálks hins virta blaðs Pittsburg Dispatch, greip fréttina á lofti og greindi frá því, að “British Chess Magazine segi fréttir af íslensku skákfélagi, sem hafi 40 meðlimi og haldi skákmót!” í dálki sínum 15. apríl 1901.

 
Fréttirnar voru fljótar að berast frá Þýskalandi til Bretlands og þaðan áfram til Pittsborgar, þar sem Napier sat. En nafn félagsins þó brenglast dálítið á leiðinni og nú hét það “Taffifjelaz Reykjavikur”. Napier fannst nafnið dálítið skondið og vísaði til orða Mark Twains um hvernig germönsk orð gætu stundið verið furðuleg. (Hilbert, bls. 177-178)

 
 
Hvernig á að tefla Sikileyjarvörn?
 

Napier hafði greinilega ekki enn fengið í hendur vinningsskák Péturs Zóphóníassonar gegn Sigurði Thoroddsen verkfræðingi, því það var ekki fyrr en í skákdálki hans 10. mars 1902, að hennar var getið og þá undir titlinum: “A Game from Iceland”, án nokkurra fleiri vísbendinga um, hverjir þessir menn væru.

 

 
Napier hafði þá tekið þátt í þýska “Kongressinu”, afar sterku skákmóti, og hefur þá vísast rekist á vinningsskák Péturs í Deutsche Scachzeitung, litist vel á og sent hana heim.
 
 
En upphafsleikirnir í skák Sigurðar og Péturs voru eftirfarandi:
 
1.e4 c5 2.d4 cxd4 3.Dxd4 Rc6 4.Dc3 e6 5.a3 a6 6.Rf3 b5 7.Bd2 Bb7 8.Bd3 Rf6 9.0–0 Dc7 10.He1 Hc8 11.b4 Rg4 12.Db2 Bd6 13.g3 Rce5.
 
 
Gegn “Center Counter” Sigurðar beitti Pétur “Paulsen-uppstillingu”, mjög svipaðri þeirri, sem vinsæl er í dag. Slíkt hafði Napier aðeins einu sinni áður teflt, þegar hann var 14 ára og þá í fjöltefli gegn sterkum meistara. Þeirri skák tapaði hann illa og hafði upp frá því illan bifur á 2...e6 í Sikileyjarvörn, eða almennt því að leika e6 snemma tafls í Sikileyjarvörn. Þegar hann á annað borð lék Sikileyjarvörn, varð Drekaafbrigði, með 2...Rc6, frekar fyrir valinu. En hér hafði hann séð merkilega uppstillingu hjá Pétri. En gæti hún verið góð?

 

Hann fór frá Þýskalandi og til Lundúna, þar sem hann tefldi nokkrar gamniskákir gegn minna þekktum skákmönnum, en fór þaðan til Skotlands. Í Edinborg tefldi hann við hina innfæddu, m.a. nokkrar skákir við Skotlandsmeistarann Daniel Mills, sem þá var rúmlega fimmtugur. Meðal þeirra skáka, sem varðveittust frá þeim tveimur, hófust báðar á Sikileyjarvörn, 2...e6, og birtust í Pittsburg Dispatch með skýringum Napiers. Greinilegt er, að hann hafði tekið 2...e6 í sátt og, það sem meira var, hóf sjálfur að beita honum og það með töluvert góðum árangri.

 

Væri ekki ágætt að halda því fram, að Pétur og Mills hafi hjálpast að við að sýna hinum mikla meistara það svart á hvítu, að 2...e6 er án alls vafa sterkasti leikur svarts í stöðunni!

 

 

En hvers vegna til Íslands?
 
Við vitum ekki fyrir víst, hvers vegna William Ewart Napier ákvað að sigla til Reykjavíkur. Hann hafði ferðast til Lundúna og þaðan til Edinborgar. Hann vissi jú af tilveru skákmanna og skákfélags í Reykjavík, en lítið meira. Sigurskák Péturs Zóphóníassonar gegn Sigurði verkfræðingi Thoroddsen getur varla ein og sér hafa valdið því, að Napier sigldi til Íslands, og varla heldur sú frétt, að 40 skákmenn væru skráðir í taflfélagið í Reykjavík.
 
En Napier var í Edinborg, en einskonar útborg hennar var borgin Leith, sem var, ásamt Kaupmannahöfn, gluggi Íslands til útlanda. Íslensk skip sigldu gjarnan til Leith á leiðinni til Kaupmannahafnar, eða sigldu þangað sérstaklega, enda voru þá töluverð viðskipti milli Íslands og Bretlands. Hér höfðu verið fjölmargir Bretar á fer til verslunar, t.d. Louis Zöllner, sem stundaði margvisleg viðskipti hér, Ward fiskkaupmaður, Slimon kaupmaður og margir fleiri. Skip þeirra sigldu héðan til Leith.

 

Sumarið 1902 kom Ward fiskkaupmaður til Íslands, en agent hans hér, eins og marga annarra Breta, var Jón Vídalín, sem var einskonar konsúll Breta í Reykjavík og nágrenni, en hann hafði þá nýverið gerst forstjóri botnvörpungaútgerðar á Akranesi. Jón Vídalín var þá meistaraflokksmaður í skákdeildum Mið-Englands og töluvert sleipur, en þá iðju hafði hann víst lært í Bretlandi.

 

En síðsumars 1902 er Vídalín vísast staddur í Leith/Edinborg eins og venjulega á þessum árstima og til að drepa tímann milli viðskiptafunda hefur hann vísast farið inn í klúbbana í Edinborg, þar sem telft var og spilað bridge, eins og hann var vanur að gera, ef hann fór ekki suður til Hereford eða annarra staða sunnan skosku mæranna.

 

Vísast hefur Jón Vídalín heyrt af því, að þar væri staddur einn af frægustu skákmönnum heims, William Ewart Napier. Slíkt spurðist fljótt út og má ætla, þó heimildir skorti fyrir staðfestingu þess, að Napier hafi tekið skák við Vídalín, eða að minnsta kosti rætt við hann um Ísland, sérstaklega skáklífið þar.


Jón Vídalín hefði getað sagt frá mörgu. Stofnun T.R. 1900 hafði orðið til þess, að taflfélög fóru nú að spretta upp. Taflfélag Akureyrar var stofnað 1901, og félag á Ísafirði sama ár og nokkur minni á smærri stöðum. Jafnvel í Grímsey, smáey lengst norður í hafi, væri skáklíf með blóma! Þetta hefur vísast vakið athygli Napiers. Hvernig stæði á því, að í fátæku og fámennu landi, lengst norður í höfum, væri skáklíf með slíkum blóma?


Vídalín hefur e.t.v. getað sagt honum, að ástæða þessa alls héti Willard Fiske.


Við vitum auðvitað ekki fyrir víst, að Napier hafi hitt Vídalín. Við vitum heldur ekki fyrir víst, hvort Vídalín hafi akkúrat á þessum tíma verið í Edinborg, þó það sé vissulega líklegt. Napier hefði líka getað hitt Ward fiskkaupmann, sem vissulega var í Leith/Edinborg um þetta leyti, en engum sögum fer af því, hvort Ward hafi kunnað skák. Það eru vissulega margir fyrirvarar á þessari “sögu”, en atburðarásin hefur vísast verið einhvern veginn svona, enda er frekar ólíklegt að Napier skyldi hafa ákveðið að fara til Íslands upp úr þurru.
 

Napier sigldi síðan með skipinu Vestu frá Skotlandi til Reykjavíkur, með viðkomu á nokkrum stöðum.